Köld hátíð býður upp á heitasta tónlistarmann landsins

Tónlistarhátíðin Köld hefst í Neskaupstað í kvöld. Þar koma fram Eyjólfur Kristjánsson, hljómsveitinn Dimma og Bríet, sem telst vera einn heitasti tónlistarmaður landsins um þessar mundir og vakti mikla athygli þegar miðasalan hófst.

„Það seldist mjög hratt upp, þetta minntist nánast á Bieber-stemmingu,“ segir Guðjón Birgir Jóhannsson, einn aðstandenda hátíðarinnar.

Hægt var að kaupa bæði passa á alla tónleikana þrjá, sem og stök kvöld. Passarnir eru uppseldir, en örfáir miðar eru eftir á tónleika Eyjólfs í kvöld. Bríet kemur fram á morgun og Dimma á laugardag.

„Við vildum ekki halda flókna hátíð með mörgum atriðum heldur vera með eitt atriði á hverju kvöldi sem fengi alla athyglina. Það er ekkert leyndarmál að þetta byggir á Hammond-hátíðinni á Djúpavogi, sem mér finnst besta tónlistarhátíð landsins,“ segir Guðjón Birgir.

„Upphaflega horfðum við á viðburðadagatal ársins og fannst febrúar rólegur, þorrablótin að baki og árshátíðirnar ekki hafnar. Því fannst okkur kjörið að smella í eina skítkalda tónlistarhátíð.“

Ekki hefur þó verið átakalaust að koma hátíðinni í loftið. Köld var fyrst haldin í lok febrúar í fyrra, rétt áður en samkomutakmarkanir gengu í gildi. Þá var hátíðinni frestað í vetur þar sem takmarkanir voru hertar daginn sem hún átti að hefjast.

„Okkur fannst leitt að ekki væri hægt að taka tillit til þess að engin smit voru á Austurlandi. Við höfum fengið ágætar leiðbeiningar frá sóttvarnayfirvöldum, þær eru reyndar ekki fullkomlega skýrar, en við höfum átt ágætis samtöl við lögregluna hér um túlkunina og fylgjum henni til hlítar.“

Í þeim felst að aðeins eru 100 miðar í boði á hvern viðburð, sætin eru númeruð, grímuskylda og veitingasala ekki leyfð.

Tónleikarnir hefjast svo allir klukkan 20:00 og eiga gestir að vera farnir úr Egilsbúð klukkan 22:00. Guðjón Birgir segir allt klárt fyrir helgina. „Við kláruðum að setja upp í gærkvöldi svo það er allt tilbúið í partý.“

Frá hátíðinni í fyrra.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.