Klámmyndband tekið upp í heimavistarhúsi VA

Klámmynd, tekin upp í heimavistarhúsi Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað, fór í dreifingu á vinsælli klámvefsíðu í stuttan tíma í lok júní. Norðfirðingar bíða spenntir eftir næsta þorrablóti.

„Þetta er saklaust í byrjun, svo verður það sífellt blárra og loks alveg dökkblátt,“ segir einn þeirra fjölmörgu Norðfirðinga sem séð hafa myndbandið.

Af lýsingum sem Austurfrétt hefur fengið á myndbandinu byrjar það á venjulegum náttúrulífsmyndum frá ferðinni austur á landi. Parið sést síðan ganga nakið um ganga skólans, áður en það heldur inn í ákveðin rými hússins þar sem leikar taka að æsast. Ekki leynir sér hvar myndskeiðið er tekið upp af þeim sem þekkja til.

Parið hefur gert sambærileg myndbönd á ferðum sínum víðar um veröldina og hlaðið þeim upp á vinsæla klámsíðu. Myndbandið úr Neskaupstað var þar aðeins aðgengilegt í örfáa daga áður en það var tekið niður. Það hafði þá fengið nokkuð þúsund áhorf.

Heimavistarhúsið er í sumar rekið sem sumarhótelið The Cliff sem er á vegum Hótel Hildibrand. Um var að ræða starfsmann á hótelinu ásamt maka. Hákon Guðröðarson, hótelstjóri, segir að um leið og vitneskja hafi borist um myndbandið hafi stjórnendur hótelsin farið þess á leit að það yrði fjarlægt og gengið frá starfslokum starfsmannsins.

Norðfirðingar virðast almennt taka uppátækinu af stillingu og heldur hafa húmor fyrir því, eins og fjöldi orðaleikja sem farinn er af stað ber vitni um. Þá tóku viðmælendur Austurfréttar sérstaklega fram að þeir væru spenntir fyrir hvernig myndbandinu yrðu gerð skil á næsta þorrablóti.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.