Kjörinn dagur til þess að brýna baráttuandann

Líkt og undanfarin ár býður Fjarðaál konum heim til þess að fagna kvennréttindadeginum sem er í dag, 19. júní.



Dagskráin í Fjarðaáli hefst klukkan 16:30 og er hún að vanda fjölbreytt og skemmtileg, innblásin baráttuanda kvenna.

Veislustjórn er í höndum Vandræðaskáldanna og opnunarávarp verður frá Rosu García Pinero yfirmanni sjálfbærnimála hjá Alcoa á heimsvísu. Birna Guðmundsdóttir framleiðslustarfsmaður í steypuskála ávarpar samkomuna fyrir hönd Fjarðaálskvenna og Andrea Hjálmsdóttir, lektor við Háskólann á Akureyri flytur ávarpið; Langhlaup án marklínu – hversu hratt getum við hlaupið í jafnréttisátt?

„Erindi Andreu er afar áhugavert, en hún ætlar að fjalla um mikilvægi jafnréttis á fleiri stöðum en bara í atvinnulífinu. Það þarf að huga að því til dæmis á heimilum, staðan þar ætti ekki að vera einkamál ef við erum að krefjast þess í atvinnulífinu. Hvernig ætlum við að ná því þar ef konur eru svo alltaf að taka aðra og þriðju vaktina heima,” segir Dagmar Ýr Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Fjarðaáls.

„Þá munu Fjarðadætur stíga á stokk og flytja nokkur lög og unglistahópurinn Orðið er laust koma fram, en það verður sérstaklega gaman að fá þeirra sýn á jafnréttismál,” segir Dagmar Ýr. 

Tæplega 200 konur hafa sótt Fjarðaál heim á þessum degi undanfarin ár og gerir Dagmar Ýr ráð fyrir því að svo verði einnig í ár. „Þetta er alltaf mjög ánægjuleg samkoma þar sem við minnumst þess að þennan dag fengu konur kosningarétt eftir mikla baráttu formæðra okkar. Mér finnst þessi dagur kjörinn til þess að brýna baráttuandann.”

Kvennadagsmyndina frá Fjarðaáli í ár prýða þrjár stúlkur sem voru að ljúka námi frá Grunnskóla Reyðarfjarðar í vor, en þær sóttu námskeið í sjálfseflingu sem Fjarðaál styrkti.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.