Orkumálinn 2024

Kerfið gerir ekki ráð fyrir tveimur mæðrum

„Við fundum strax að hér væri gott að vera og nú vorum við að kaupa okkur hús þannig að við erum ekki að fara neitt,“ segir Rakel Kemp Guðnadóttir, sem fluttist á Reyðarfjörð fyrir þremur árum með fjölskyldu sinni. Rakel er verkefnastjóri hjá Fjarðabyggð í tengslum við móttöku flóttafólks, en hún var í forsíðuviðtali síðasta blaðs Austurgluggans.


Rakel er gift Maríu Önnu Guðmundsdóttur og saman eiga þær synina Stefán Þór (sex ára) og Davíð Örn (þriggja ára). Í viðtalinu segir Rakel frá þeim flóknu tilfinningum læðst að þegar báðar konurnar í sambandinu eru tilbúnar til þess að ganga með barn en það kemur að sjálfsögðu aðeins í hlut annarrar þeirra í hvert skipti. María Anna gekk með fyrra barnið.

„Við vorum báðar tilbúnar að ganga með barn en hún er eldri og trompaði mig og fékk því að byrja. Það eru allskonar tilfinningar sem því fylgja að vera kona og ganga ekki með barnið, maður stendur svo utan við þetta norm; að vera karl og kona,“ segir Rakel, sem einmitt skrifaði BA-ritgerð sína um hinsegin mæður og upplifun þeirra af móðurhlutverkinu þegar þær ganga ekki með barnið.

„Ég man svo vel þegar við vorum að fara inn í þetta ferli, við keyptum bók um meðgöngu- og fæðingu en í þessu 400 blaðsíðna riti var aðeins einn agnarstuttur kafli um föðurinn og ekkert um hinsegin foreldra. Þarna voru bara gamlar og niðurnjörvaðar hugmyndir um foreldrahlutverkið og ég átti hvergi heima innan þeirra.

Sem betur fer erum við María Anna góðar saman og ræddum þetta opinskátt frá upphafi og bjuggum til hlutverk fyrir mig, ég til dæmis pantaði alla tíma í mæðraskoðanir og sá um öll önnur samskipti við heilsugæslu. Ég fór að sjálfsögðu með í allar skoðanir og vaknaði alltaf með henni eftir að barnið var fætt og rétti henni hann til að gefa. Það fannst mér erfitt, brjóstagjöfin, en María Anna var sú eina sem gat huggað hann. Ég man hve mikið frelsi það var þegar hann var farinn að borða og ég gat tekið hann með mér þangað sem ég vildi fara og hann var ekki lengur bundinn henni.

Þetta leystist þó allt vel og var ekkert sem háði okkur en þetta er eitthvað sem ég held að fólk átti sig ekki endilega á hvað getur verið flókið. Ritgerðin mín sem sagt staðfesti að þessar konur upplifa sig útundan, átta sig illa á því hvaða hlutverki þær gegna og hvað þær eigi að kalla sig, en kerfið gerir ekki ráð fyrir þeim. Og Guð minn góður, nú erum við búnar að ganga hvor með sitt barnið og langar í fleiri þannig að við þurfum að fara að finna út úr því hver á að ganga með, ætli við endum ekki með því að draga strá,“ segir Rakel og hlær.

Tengslin milli barnanna alveg þau sömu
Rakel segir að hún sé töluvert spurð að því hvort tengslamyndun við börnin sé sú sama, þrátt fyrir að hafa aðeins gengið með annað þeirra. „Það er enginn munur, það er alveg magnað. En fólk ætlar að það sé munur. Ég las mér mikið til um það hvernig mér ætti eftir að líða, hvort það myndi skipta máli upp á tengslamyndun að ég fyndi hann aðeins sparka utanfrá, hvort ég þyrfti að leggja mig markvisst fram við að tengjast honum. Það var svo sannarlega ekki en Stefán Þór hefur átt mig með húð og hári frá því augnabliki sem hann kom í heiminn. Þegar ég gekk með Davíð Örn hafði ég svo áhyggjur af því að hjarta mitt myndi ekki rúma meiri ást en það virðist bara stækka eftir því sem börnunum fjölgar.“

Brjóta niður múra samfélagsins
Rakel segist aldrei hafa fundið fyrir fordómum í garð fjölskyldu sinnar fyrir austan. „Jú, jú, við erum kannski spurðar undarlegra spurninga en það er ekkert tengt við lítil samfélög, heldur er alls staðar. Ég ákvað strax að nota tækifærið og fræða í stað þess að fara í vörn. Það hafa allir tekið okkur návæmlega eins og við erum og ekki sett okkur neinar takmarkanir.

Það er samt skrítið að í þessu stóra samfélagi séu synir okkar þeir einu sem eiga samkynhneigða foreldra í sambúð. Það virðast einnig fáir hinsegin krakkar á svæðinu og miðað við tölur og hlutföll, þá er það eitthvað sem ekki passar.

Það fylgir þessu þó jákvæðni en börnin okkar eru brautryðjendur og skólakerfið starfar vel með okkur og ýmsu hefur verið breytt eftir að þeir hófu sína skólagöngu. Til dæmis er búið að breyta merkingu barnanna á fatahólfunum frá því að þar stóð: mamma mín og pabbi heita, yfir í það að nú stendur: foreldrar mínir heita. Einnig hefur skólinn fjallað um mismunandi fjölskylduform, kennararnir hafa einnig brugðist við og breyta markvisst söngtextum sem gera alltaf ráð fyrir mömmu og pabba. Auðvitað eru þetta lítil skref en það þarf að byrja einhvers staðar á því að brjóta niður þessa múra.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.