Kenndi fyrst sund í köldum pollum

Stefán Þorleifsson, fyrrverandi íþróttakennari í Neskaupstað, segir aðstöðu til sundkennslu í bænum hafa verið fábrotna þegar hann byrjaði að kenna þar íþróttir. Strax var hafist handa við að undirbúa byggingu sundlaugar og varð Stefán framkvæmdastjóri byggingarinnar. Laugin heitir Stefánslaug til heiðurs honum.

„Fyrsta árið sem ég kenndi sund var það í köldum polli uppi í fjalli, fyrir ofan Hrafnsmýri og Gauksmýri. Eitt málfundfélagið sem starfaði hér byggði þennan poll. Ég var þarna með tjald til að nemendurnir gætu skipt um föt,“ rifjar Stefán upp í viðtali í nýjasta þætti hlaðvarpsins Norðfirðings. Umsjónarmaður þess er Daníel Geir Moritz og er það sent út í sumar í samvinnu við Síldarvinnsluna og Austurfrétt.

Þá strax var byrjað að undirbúa byggingu sundlaugar á staðnum og fór Stefán suður til Reykjavíkur að vinna að framgangi verkefnisins á sama tíma og breskur herflokkur lenti í miklum hrakningum á Eskifjarðarheiði í janúar 1942.

„Ég man maður varð að gæta sín vel þegar við fórum um borð í strandferðaskipið, Esjuna, að fjúka ekki því það var brjálað veður. Hrakningar hermannanna höfðu ekki áhrif á ferð skipsins nema að veðrið seinkaði brottförinni.“

Leitað til laghentra manna

Syðra hitti Stefán fyrir Þorstein Einarsson, íþróttafulltrúa ríkisins. Þeir höfðu átt í samskiptum og hafði Stefán óskaði eftir 25 metra laug ásamt búningsaðstöðu fyrir hönd Norðfirðinga, sem mætti þó ekki vera of stór því heitt vatn væri takmarkað í byggðarlaginu.

„Hann tekur mér afskaplega vel og segir að við skulum fara til húsameistara ríkisins og fá hann til að teikna fyrir okkur laugina. Sá var broddborgari sem lét þéra sig, ég man ekki hvort ég gerði það, en hann vísaði verkinu frá sér og á undirmann sem við áttum mjög góða samvinnu við.“

Þegar heim var komið var Stefán gerður að framkvæmdastjóra sundlaugarinnar og hófst hann handa við að fá iðnaðarmenn í verkið. „Við vorum svo heppnir að verkstjóri bæjarins, Sigurður Friðbjörnsson, var múrarameistari og var hann strax ráðinn yfir verkið. Við fengum enga lærða trésmiði heldur laghenta menn sem slógu upp mótunum. Ég leitaði til þeirra af frændsemi, kunningsskap og af hugsjónamennsku þeirra,“ segir Stefán en laugin var opnuð fullbúin 8 ágúst 1943.

Settu saman steypuhrærivél

Á ýmsu gekk, meðal annars reyndist steypuvélin erfið. „Við fundum steypubelg úti við Sigfúsarhús. Svo vissi Helgi Hjörleifsson um rafmagnsmótor, sem ekki var notaður, í fóðurmjölsverksmiðjunni innfrá. Hann fer þangað og finnur drifhjól og reimar.

Helgi var þúsundþjalasmiður og tengir þetta allt saman til að drífa hrærivélina. Án þessa hefðum við þurft að hræra allt í höndunum. Þetta gekk ljómandi vél og hélt allt þar til við ætluðum að fara að steypa stéttina, þá brann mótorinn yfir. Þá hrærðum við í höndunum.“

„Sáum ekkert nema eyðileggingu“

Stefán er fæddur 18. ágúst árið 1916 og fagnar því 102 ára afmæli sínu eftir tæpan mánuð. Í hlaðvarpsþættinum rifjar hann meðal annars upp byggingu sjúkrahússins í Neskaupstað, uppvaxtar ár sín á staðnum, seinni heimsstyrjöldina og snjóflóðin sem féllu á bæinn 20. desember árið 1974 en tólf manns fórust í þeim.

„Þessi dagur er eins og martröð. Konan mín vann sem bæjarritari og það var strax haft samband við bæjarstjórnina. Hún hringdi í mig og ég fer strax á vettvang því ég var í björgunarsveitinni. Við fórum inn á svæðið við síldarverksmiðjuna en gátum ekkert gert, við sáum ekkert nema eyðileggingu.

Ég held að flóðin hafi fyrst og fremst haft þau áhrif á samfélagið hér að menn voru ákveðnir í að tryggja sem fyrst að snjóflóð gætu ekki aftur valdið slysum í bæjarfélaginu. Þess vegna eru þessi mannvirki ofan við byggðina til.

Áður voru menn ekkert að hugsa um snjóflóð en eftir þetta vissu menn að fjallshlíðin fyrir ofan okkur bjó yfir hættum sem við yrðum að vernda byggðina fyrir.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.