Kennarar í blómakjólum og Háeyjar-skyrtum á gleðiviku í ME

Nemendur, kennarar og starfsfólks Menntaskólans á Egilsstöðum halda nú í fyrsta sinn gleðiviku. Samverustund með kelnum kanínum er meðal þess sem boðið er upp á til að ýta undir hamingjuna.

„Skólinn setti sér fyrr í vetur gildi og nemendur og kennarar voru sammála um að þau skyldu verða virðing, jafnrétti og gleði. Hvert gildi fær sína viku og nú höldum við upp á gleðivikuna,“ segir Hildur Bergsdóttir, formaður skólabrags- og heilsueflingarnefndar.

Vikan hófst á „brosa og heilsa deginum“ á mánudag, sem var hugmynd frá nemendum. Í gær var vígt tónlistarherbergi sem nemandi í skólanum tók að sér að innrétta og hlotið hefur nafnið Sönghofsdalur.

Þá var unnið með hamingjupíramídann, sem byggir á þarfapíramída Maslow. „Við vorum að velta fyrir okkur hvað einkennir hamingjusamt fólk,“ segir Hildur.

Í dag er „gleðjum hvert annað dagurinn.“ Í gangi er leikur þar sem nemendur safna stigum með að gera eitthvað sem gleður annað, til dæmis að gefa kennara epli. Flest stig fást fyrir að setjast hjá nýrri manneskju í matsalnum, bera innkaupapoka fyrir eldri manneskju og knúsa ókunnugan.

Þá er fyrirlestur með Héðni Unnsteinssyni um Lífsorðin 14, persónulega reynslu af baráttunni við geðsjúkdóm og leitina að hamingjunni. Héðinn verður einnig með sambærilegan fyrirlestur fyrir almenning klukkan 20:00 í Hlymsdölum, félagssal eldri borgara á Egilsstöðum. Þar verður með honum Elín Ebba Ásmundsdóttir sem talar um hamingjuna en alþjóðlegi hamingjudagurinn er í dag.

Síðar í vikunni verður hvatningarhjól skólans vígt. Einn kennaranna, Fjölnir Hlynsson, smíðaði það en því er hægt að snúa til að fá hvatningarorð. Á föstudag koma líka í heimsókn tvær kanínur sem hægt er að fá að klappa.

Þá hefur verið lögð áhersla á litskrúðugan fatnað, svo sem blómakjóla og Háeyjarskyrtur. „Þar sem þetta er í fyrsta skipti sem við höldum vikuna erum við að læra ýmislegt sem nýtist okkur síðar. Nemendur hafa sýnt okkur ýmislegt sem í þeim býr, oft eiga þau meira inni en við gefum þeim hrós fyrir.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.