Orkumálinn 2024

„Kem heim til að þvo og halda jól“

Vopnfirðingurinn Sigurður Ólafsson hefur farið víða um heiminn eftir að hann komst á eftirlaun. Hann varð áttræður í ár en lét það ekki aftra sig frá því að fara í svifflug í Ölpunum og reglubundna ferð til Gambíu þangað sem hann heldur í sjöunda sinn í janúar.

Sigurður var nautabóndi í Vatnsdalsgerði í 48 ár, hann byrjaði 19 ára gamall að búa með fóstra sínum og móður en keypti býlið af þeim árið 1974. Hann hætti svo sjálfur að búa árið 2005 og snéri sér að öðrum áhugmálum.

Hann var meðal stofnenda Kiwanisklúbbsins Öskju í ársbyrjun 1968 en hætti í klúbbnum vegna anna við búskapinn. Þegar búskapurinn var að baki gekk hann aftur í klúbbinn.

Það var í ferð á vegum Kiwanis, nánar tiltekið Evrópuþingi í Póllandi árið 2007, sem flakk bóndans fyrrverandi. „Diðrik Haraldsson, félagi frá Selfossi, hafði í félagi við annan mann stofnað lítið fyrirtæki með smárútur úti í Gambíu.

Það vitnaðist að hann væri með þetta fyrirtæki og það voru konur að spyrja hvernig væri að vera í landinu og hvort hann gæti ekki verið fararstjóri í ferð þangað. Hann svaraði að það væri ekkert mál. Ég sat skammt frá og heyri á þessa umræðu, gríp inn í og segi „þú ert kominn með farþega.“

Árið áður hafði hann reyndar farið með vinum sínum með Norrænu til Færeyja og var þar í viku. „Síðan hefur þetta verið nokkuð sleitulaust hjá mér. Ég kem heim til að þvo og halda jól!,“ segir Sigurður í viðtali í síðasta tölublaði Austurgluggans.

Stresslaust líf

Sigurður fer í janúar í sjöunda sinn til Gambíu. Í fyrsta skiptið var hann bara í tvær vikur en núna dvelur hann þar í sex vikur. Þá leigðu félagarnir eigið hús en í seinni tíð hafa þeir verið á minni hótelum. „Það var eðla undir rúminu, fínasta húsdýr því hún át pöddurnar.“

Aðspurður lýsir hann lífinu hjá félögunum í Gambíu sem „stresslausu. Dagurinn líður eins og þú vilt láta hann líða.“

Gefur aðra sýn að sjá hvernig annað fólk býr

Gambía er minnsta landið á meginlandi Afríku, um 11 þúsund ferkílómetrar að stærð. Það er á sama lengdarbaugi og Ísland. Landinu er best lýst sem mjórri upp með Gambíufljóti sem síðan er umlukin Höfuðborgin Banjul stendur við ósa Gambíufljótsins en Sigurður og ferðafélaga hans dveljast í bæ um hálftíma í burtu.

Talsverð fátækt er í landinu og menntun takmörkuð, áætlað er að um rúmur helmingur landsmanna sé læs.

„Húsin eru ekki öll merkileg, sum eru hálfgerð skýli. Ég kom eitt sinn inn á heimili þar sem bjó ung kona með tvær dætur sínar. Þær lágu allar í sama fletinu og það rigndi á þær á regntímanum. Það er það nöturlegasta sem við höfum séð, þarna var ekki neitt til neins.

Mánaðarlaunin eru um 9-10 þúsund krónur íslenskar, af því borgar fólk kannski þrjú þúsund í húsaleigu. Þá erum við að tala um góðar íbúðir en það er ekki mikið eftir til að lifa af.

Það hefur gefið mér allt aðra sýn að ferðast um heiminn, sjá þverskurð af honum og hvernig fólk lifir annars staðar. Það gefur manni mikið, sérstaklega þegar ég kem heim, að sjá hvað við höfum það gott hér þótt við séum alltaf að kvarta.“

Ekki nema tíu mínútur að setja ofan í tösku

Sigurður segist fara að jafnaði tvær til þrjár ferðir á ári. Í fyrra byrjaði hann árið í Gambíu og fór síðan til ítölsku borgarinnar Baveno sem stendur við Maggiore-vatn, um einn og hálfan tíma norðvestur af Mílanó. Þaðan hélt hann áfram ferðalagi sínu upp til Interlaken í Sviss þar sem hann flaug með svifvæng.

„Það er yndislegt að fara upp á fjallið og svo fram af því. Það er svo gaman,“ segir hann. Hann er hrifinn af Alpasvæðinu og nefnir Austurríki og Sviss sem fallegustu staðina sem hann hafi heimsótt.

En hann hefur líka farið á fjarlægari slóðir, svo sem til Kína ásamt Diðriki í marsmánuði 2015 og til Kúbu ári síðar. Þá ferð bar nokkuð bratt að.

„Diddi hringdi í mig að kvöldlagi og spurði hvort ég væri ekki með til Kúbu. Ég sagði bara já og þar með var málið afgreitt. Ég er ekkert að velta hlutunum mikið fyrir mér. Annað hvort er það já eða nei og yfirleitt er það já. Ég er ekki nema tíu mínútur að setja ofan í ferðatösku og svo er ég farinn.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.