Kanónur framtíðarinnar með tónleika á Eskifirði

„Fyrsti einstaklingurinn sem fékk þennan styrk frá Rótarýhreyfingunni á sínum tíma var píanósnillingurinn Víkingur Heiðar Ólafsson svo það er í stóra skó að fara,“ segir Ásdís Helga Bjarnadóttir, umdæmisstjóri Rótarýhreyfingarinnar á Íslandi.

Hreyfingin stendur fyrir tónlistarveislu með sérstökum hátíðartónleikum í Tónlistarmiðstöð Austurlands á sunnudaginn kemur en þá verða þessir árlegu hátíðartónleikar haldnir í aðeins annað skipti skiptið utan höfuðborgarsvæðisins og í fyrsta sinn hér austanlands.

Þar koma fram, auk sviðslistahópsins Austuróps, tveir tónlistarnemar sem fengið hafa drjúgan styrk frá Rótarýhreyfingunni fyrir framúrskarandi árangur í framhaldsnámi í tónlist á erlendri grundu. Rótarý hefur veitt slíka styrki frá árinu 2005 og alls 30 einstaklingar þegið frá þeim tíma.

Um er að ræða að þessu sinni Sólveigu Vöku Eyþórsdóttur, fiðluleikara, en hún stundar framhaldsnám í fiðluleik í Leipzig í Þýskalandi og Alexander Smára Edelstein, píanóleikara, sem leggur stund á nám sitt í Maastrict í Hollandi. Þau munu bjóða gestum sínum upp á verk eftir Bach, Schubert og Tchaikovsky.

Meðlimir Austuróps, þau Hlín Pétursdóttir Behrens, sópran, Erla Dóra Vogler, messósópran, Árni Friðriksson tenór, Valdimar Hilmarsson barítónn auk píanóleikaranna Helenu Guðlaugar Bjarnadóttur og Daníels Þorsteinssonar flytja auk þess hið þekkta Liebeslieder Walzer eftir tónskáldið Johannes Brahms.

Miðar á viðburðinn fást á vef Tix.is en tónleikana er einnig hægt að upplifa í beinu streymi ef fólk á bágt með að komast á staðinn. Streymisvefurinn er https://www.vvenue.events/rotary

Mynd: Úr Tónlistarmiðstöð Austurlands þar sem hátíðartónleikarnir fara fram á sunnudaginn kemur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.