Orkumálinn 2024

„Kannski kemur kjólaáhuginn frá Disney prinsessunum”

„Maður gerir ekki uppá milli barnanna sinna, ég elska þá alla,” segir sópransöngkonan Berta Dröfn Ómarsdóttir sem ættuð er frá Fáskrúðsfirði, um kjólana sína, en áramótaheitið hennar í ár snýr að því að kynna einn kjól á mánuði úr safninu á heimasíðunni sinni.



Aðspurð hvers vegna þetta áramótaheit hafi orðið fyrir valinu segir Berta Dröfn; „Mér, eins og mörgum öðrum landsmönnum þykir gaman að setja mér áramótaheit. Fyrir árið 2018 hét ég því að ná að gera „hið fullkomna Tiramisu. Ég elska Tiramisu en er óttalegur klaufi í nákvæmnisvinnu í eldhúsinu. Systir mín, Selma Rut, var iðulega tilraunadýr hjá mér við þá iðju. Yfir einhverri fullkomlega vonlausri tilrauninni sagði hún; „settu þér bara eitthvað raunhæfara áramótaheit á næsta ári!” Þetta þótti mér algerlega frábært komment en alls ekki til að auka sjálfstraustið mitt í eldhúsinu,” segir Berta Dröfn og hlær.

Segir oft sögur af kjólunum sínum á tónleikum
Úr varð að áramótaheit Bertu Drafnar fyrir árið 2019 var að setja inn pistil um einn kjól í mánuði á heimasíðuna sína og lita sögu tengdum hverjum og einum þeirra.

„Ég er mikil kjólakona og þykir vænt um alla kjólana mína. Þeir vekja oft athygli og ég hef fengið ótrúlegustu komment frá ókunnugu fólki um það hvernig ég klæði mig. Ég hef oftast gaman af því og segi stundum frá slíkum sögum þegar ég kem fram. Þess vegna finnst mér þetta kjörið tækifæri til að halda þeim til haga, ekki síst fyrir sjálfa mig,” segir Berta Dröfn.


„Ég held ég hafi alltaf verið svona”
Fatastíll Bertu Drafnar er litríkur og skemmtilegur. „Þegar ég var unglingur var í tísku að vera í gallabuxum með rosalega lágu mitti og stuttum peysum þannig að oftar en ekki stóð g-strengurinn uppúr. Ég er ekki með vaxtalag sem hentar slíkum fatnaði og ef ég klæddist svoleiðis buxum þurfti ég að ganga með afturendann upp við vegg og aldrei setjast niður. Þar af leiðandi leið mér ekkert rosa vel þegar ég reyndi að vera skvísa. Kjólar einfaldlega henta mínu vaxtarlagi betur og mér líður vel í þeim.”

Hvaðan kemur þessi mikli áhugi á kjólum, já og litríkum og skemmtilegum fötum? „Ég eiginlega veit það ekki en man ekki eftir mér öðruvísi. Ég held ég hafi alltaf verið svona, með örlítilli pásu á mestu gelgjunni. Sem barn hafði ég snemma mikla skoðun á því hvernig ég var klædd, var ekki sammála fata samsetningunum sem mamma stakk uppá og var ánægðust þegar ég komst upp með að klæða mig sjálf.

Kannski kemur kjólaáhuginn frá Disney prinsessunum, en ég elskaði þær sem voru í flottustu kjólunum. Barbie gæti líka verið ástæða fyrir þessum áhuga en ég lék mér fram eftir öllum aldri með slíkar dúkkur í fínum kjólum. Svo safnaði ég þjóðbúnings dúkkum þegar ég var barn og fæ ekki leið á því að pæla í ólíkum stílum frá ólíkum löndum. Draumurinn er að fara til Japans og Indlands einhvern tímann þegar ég á nóg af peningum til að borða og kaupa mér kjóla."

 

Getur gleymt sér við að skoða kjóla

Ég hef mikla unun af kjólum, en Facebook síðan virðist búin að finna það út og sendir nánast bara kjólaauglýsingar. Ég get alveg gleymt mér yfir því að skoða kjóla, á netinu, í búðum, út á götu, á tónleikum og sýningum.

Mín skoðun er að margir misskilji orðasamhengið; „að klæða sig eftir veðri” og túlki það sem; „að klæða sig eins og veðrið”. Það er algjör óþarfi að geyma litríku fötin fyrir þessa örfáu sólardaga sem við fáum á ári. Ég hef gaman af litum og að klæða mig í liti. Hörundslitur minn er mjög hvítur, eins og fylgir oft rauðhærðu fólki og mér finnst svartur klæðnaður, grár eða hvítur ýta undir það hvað ég er föl. Litir draga frekar úr því og gera mig frísklegri, en þetta á örugglega við fleiri.”

 

Berta Dröfn Ómarsdóttir2

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.