Kammerkórinn syngur Messu Schuberts

Kammerkór Egilsstaða, ásamt kammersveit heimafólks undir stjórn Torvalds Gjerde, flytur Messu nr. 4 eftir Franz Schubert í heild sinni á aðventutónleikum á sunnudagskvöld. Kórfélagar hafa að undanförnu þurft að takast á við bæði krefjandi tónverk og Covid-faraldurinn.

„Þetta er ótrúlega fallegt verk sem ekki er flutt sérstaklega oft. Það er hins vegar krefjandi. Í fyrsta lagi liggur það mjög hátt fyrir ákveðna söngvara auk þess sem mikill einsöngskafli er í því,“ segir Nanna Imsland, kórfélagi.

Kammerkórinn hefur undanfarin ár haft það fyrir sið að syngja inn aðventuna. Kórinn hefur tekist á við metnaðarfull tónverk, meðal annars Jólaoratoríu Bach og nú er röðin komin að Schubert. Fleiri lög verða þó á dagskránni á sunnudag, fyrir hlé verða sungin aðventu og jólalög.

Upphaflega stóð til að flytja verkið í vor en því var frestað vegna samkomutakmarkana. Þær hafa haft áhrif á æfingar. „Við höfum alltaf æft með bil á milli okkar. Það getur verið snúið því í kór þarf að syngja inn í hljóminn þannig allir hljómi saman og það er flóknara með bil á milli,“ útskýrir Nanna.

Þá þurfa gestir við komu á tónleikana að framvísa neikvæðu hraðprófi. Opið er í sýnatöku á Egilsstöðum klukkan 11:30-12:30 á sunnudag. „Það var annað hvort að gera þessa kröfu eða slaufa verkefninu og það hefði þá verið í annað sinn,“ segir Nanna.

Kórinn telur sextán söngvara en með honum verður sjö manna hljómsveit. Tónleikarnir verða í Egilsstaðakirkju klukkan 17:00.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.