Kaffibrennsla skýtur rótum á Stöðvarfirði

Lukasz Stencel er nýfluttur aftur til Stöðvarfjörð með nýsköpunarfyrirtæki sitt, kaffibrennsluna Kaffi Kvörn, í farteskinu. Hann hefur komið sér fyrir í Sköpunarmiðstöðinni, þar sem hann vann í fiski eftir að hann kom fyrst til Íslands og keypti síðar ásamt öðrum á eina krónu.

Lukasz er alinn upp í Póllandi. Afi hans starfaði þar sem stöðvarvörður á lestarstöð og Lukasz segist muna eftir honum takandi út sekki með óbrenndum kaffibaunum, svokölluðum grænum baunum, sem fólkið í nágrenninu sótti til að rista sér.

Lukasz flutti síðan ásamt fjölskyldu sinni til Stöðvarfjarðar um tvítugt til að vinna í fiski. Hann hélt síðan suður þegar frystihúsið lokaði en kveðst alltaf hafa hugsað austur. „Ég hef alltaf elskað þennan stað og viljað flytja til baka. Ég hef komið hingað nær öll sumur. Ég hef ekki hætt að brosa síðan ég flutti hingað aftur í ár,“ segir hann.

Fyrir sunnan fór Lukasz að fikta við kaffibrennslu, fyrst með lítilli vél heima hjá sér. „Ég bjó loks til minn eigin brennara úr brauðrist og hitakönnu,“ segir Lukasz í viðtali við Austurglugga vikunnar. Hann keypti sér síðan brennara, passlegan fyrir eldhúsbekkinn og fór að rista fyrir kaffihúsið í hverfinu. Þaðan barst hróður hans út.

„Næst fékk ég fyrirspurn frá Íslenskri erfðagreiningu um að kaupa kaffi, 50-60 kíló á mánuði. Vélin mín gat brennt 700 grömm af baunum í einu. Ég sinnti dagvinnunni og brenndi kaffi til klukkan ellefu á kvöldin. Ég held ég hafi alls brennt fimm tonn af kaffi með litlu vélinni.“

Nákvæmnisverk

Að brenna kaffi er sambland af vísindum og list. Fylgjast þarf mjög nákvæmlega með ferlinu, sem nú er gert í gegnum tölvutækni, til að fá fram rétta bragðið. „Ef baunirnar eru brenndar alveg svartar þá missa þær ákveðna eiginlega og bragð sem annars ætti að koma í gegn. Þá finnst mér kaffið ekki gott. Þú vilt ekki skemma baunir sem hafa vaxið í fjöllum eða regnskógum í yfir 2000 metra hæð og verið meðhöndlaðar af nærgætni,“ segir Lukasz.

Litlar kaffibrennslur hafa skotið upp kollinum víða um land síðustu ár. Lukasz segir markaðinn vera að mettast í Reykjavík og það, í sambland við löngunina að snúa aftur til Stöðvarfjarðar, varð til þess að Lukasz færði Kaffi kvörn aftur í Sköpunarmiðstöðina sem er í frystihúsinu sem hann vann áður í.

Auk þess að brenna kaffi vinnur hann í því að standsetja annað rými í húsinu sem kaffihús. „Mig langar til að búa til kaffihús sem á engan sinn líka, hvorki á Austurlandi né Íslandi. Þetta verður kannski meiri svona tilraunakaffihús. Ég ætla líka að hafa lítið hljóðver í gömul símaklefa þar sem fólk getur tekið upp tónlist. Það kemst ekki nema einn fyrir – með ukulele.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.