Kafað ofan í egóið á LungA

Umræður um egóið í samfélaginu, einkalífinu og listinni verða í forgrunni á listahátíðinni LungA sem sett verður á Seyðisfirði á sunnudag. Von er á þriðja þúsund gesta til Seyðisfjarðar í næstu viku í tengslum við hátíðina.


Formlega opnunarhátíð verður á sunnudagskvöld en segja má að dagskráin sé þegar hafin því seinni hluta vikunnar hefur verið í gangi vinnusmiðja með 60 nemum frá KaosPilot í Danmörku, Hyper Island í Svíþjóð, Háskólanum í Brighton og LungA skólanum.

Þau kafa ofan í egóið og sýna afrakstur fjögurra daga vinnu á opnunarhátíðinni.

Egóið er þema hátíðarinnar í ár og því eðlilega í forgrunni LungA lab, sem er nýr hluti af hátíðinni, eins konar fræðslustofa. Fyrirlestrar verða um egóið frá ýmsum sjónarhornum, Goddur og Þórunn Eymundardóttir verða með fyrirlestra annað kvöld og næsta fimmtudag ræðir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, um egó í stjórnmálum.

„Við höfum verið með þemaverkefni undanfarin 10 ár og alltaf valið viðfangsefnið sem skipta samfélagið máli, svo sem samkennd og ég, þú og samfélagið,“ útskýrir Björt Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri hátíðarinnar.

„Við veljum alltaf viðfangsefni sem við getum tengt við bæði sem einstaklingar og samfélag og leyfir okkur að fara inn í umræðuna um samfélagslega og persónulega ábyrgð. Hvernig við getum tekið í að skapa hið góða samfélag í bænum okkar, vinnustaðnum eða inn á heimilinu með að taka ábyrgð á okkur sjálfum.

Egóið passaði inn í þennan ramma. Við ræðum um egó og samfélagsmiðla og stóra egóista í heimsmyndinni en ekki síður út frá persónulegu, tilfinningalegu sjónarmiði. Margt ungt fólk í dag elst upp með mikla minnimáttarkennd og við spyrjum hvaðan hún komi.

Við förum inn í samfélagið án fyrirfram mótaðra hugmynda um hvaða stefnu samtalið taki heldur leyfum því að þróast inni í hópunum.“

Björt segir stefnuna að þróa fræðsluhluta hátíðarinnar nánar í framtíðinni. „Við ætlum ekki að taka af skemmtanagildinu heldur bæta við og lengja hátíðina með að koma á ráðstefnufílingi helgina fyrir þar sem við einblínum á þetta samtal.“

Í gegnum næstu viku verða margvíslegar listasmiðjur í boði og verður afrakstur þeirra sýndur laugardaginn eftir viku. Hátíðinni lýkur með stórtónleikum það kvöld.

Þátttakendur í listasmiðjunum eru 120 og er uppselt í þær eins og síðustu ár. Að auki er von á 100 listamönnum til Seyðisfjarðar í vikunni og yfir 2000 gestum.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar