Jólakötturinn snýr aftur í gróðurhúsið

Jólamarkaður Jólakattarins snýr aftur á sinn stað á morgun, í gróðurhús á Valgerðarstöðum við Fellabæ og eftir tveggja ára Covid hlé. Um sextíu söluaðilar auk skógarbænda með jólatré verða með vörur þar.

Þetta er í fimmtánda sinn sem markaðurinn, gjarnan kenndur við gróðrarstöðina Barra sem nú heyrir sögunni til, er haldinn en fyrsta skiptið var 2005. Hann féll niður síðustu tvö ár vegna Covid-faraldursins.

„Við vorum langt komin í undirbúninginum í fyrra þegar fjöldatakmarkanir voru settar á í byrjun desember,“ segir Bergrún Arna Þorsteinsdóttir hjá Skógræktinni, sem ásamt skógarbændum standa að baki markaðinum. „Það er mjög gott að vera komin aftur og við finnum fyrir mikilli spennu.“

Markaðurinn var jafnan í gróðurhúsum Barra, fyrst á Egilsstöðum, síðar Valgerðarstöðum. Eftir að skógarplönturnar hurfu og wasabi framleiðsla tók gróðurhúsin yfir var markaðurinn fluttur yfir í frystigeymslur Barra þar við hliðina. Nú verður markaðurinn í gróðurhúsi sem þýðir að hann fær töluvert meira rými. „Við erum mjög ánægð með það. Við fáum stórt og mikið rými, 1600 fermetra,“ segir Bergrún Arna.

Það skiptir ekki síst máli þar sem fólk sækir ekki síst markaðinn til að sýna sig og sjá aðra. „Við gleymum stundum menningargildinu, markaðurinn er í raun líka samkomustaður. Fólk kemur langt að á markaðinn, faðir minn kemur til dæmis frá Akureyri, til að hitta fólk. Hugsunin er því líka hjá okkur að það sé nægt rými til að spjalla.“

Grunnurinn að markaðurinn er jólatrjáasala skógarbænda og Skógræktarinnar. Auk þeirra eru um sextíu söluaðilar á svæðinu. „Þetta er í meira lagi. Við erum með söluaðila allt frá Skagafirði að Höfn. Vöruúrvalið er mjög breitt en mikið af matvöru og handverki.“

Jólakötturinn er stærsti jólamarkaðurinn á Austurlandi og í hópi þeirra stærstu utan höfuðborgarsvæðisins. Þar verða einnig fastir liðir á borð við bæjarstjórnarbekkinn, þar sem fulltrúar úr sveitarstjórn Múlaþings verða til viðtals og ketilkaffi á boðstólunum. Markaðurinn stendur frá 11-16 á morgun, laugardag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.