Jóhann Sveinbjörnsson er Austfirðingur ársins 2019

Jóhann Sveinbjörnsson, 86 ára áhugakylfingur á Seyðisfirði, er Austfirðingur ársins að mati lesenda Austurfréttar. Jóhann valdi frekar að fara út á golfvöll að æfa sig kvöld eitt í ágúst frekar en horfa á sjónvarpið. Á vellinum heyrði hann köll ungrar konu sem hafði hrapað í fjallinu fyrir ofan og slasast alvarlega. Ekki mátti tæpara standa að henni yrði bjargað.

„Það var hrein tilviljun sem réði því að ég var úti á velli. Ég hafði farið í Egilsstaði og yfir á Reyðarfjörð um daginn og settist við sjónvarpið til að horfa á fréttir. Ég var búinn að koma mér vel fyrir í sófanum hér heima þegar, upp úr klukkan átta um kvöldið, byrjar þáttur sem mér líkaði ekki. Ég hugsaði með mér: „Djöfull er þetta leiðinlegt, nú fer ég inn á golfvöll.“

Ég var kominn inn eftir um klukkan hálf níu. Ég var efst á golfsvæðinu, við rætur Bjólfs, þegar mér fannst ég heyra í fuglum kallast á. Ég heyrði hljóðið nokkrum sinnum svo ég stoppaði og hóaði upp í fjallið. Ég fékk svar, en fuglarnir svara manni stundum, þannig að ég hélt áfram að slá. Ég heyrði hljóðið hins vegar við og við og hugsaði með mér að þetta gæti verið mannsrödd.

Mér fannst ekki vera hægt að ganga hjá því ef einhver væri í vandræðum. Ég var með síma en vildi ekki hringja í Neyðarlínuna því ég hélt þetta væru fuglar. Ég keyrði því út í bæ, heim til lögreglumannsins og fékk hann með mér inn eftir. Við gengum upp eftir þar sem ég hafði heyrt í konunni og hóuðum upp í fjallið. Við fengum svar til baka. Við vorum búnir að kalla svolitla stund og hlusta á hana þegar okkur kom saman um að þetta væri mannsrödd. Þá tók hann upp símann og hringdi í Neyðarlínuna.“

Virtist vera lengra í burtu

Þannig hljómar frásögn Jóhanns af því þegar hann heyrði köll ungrar konu frá Sviss sem hafði hrapað í hlíðinni fyrir ofan golfvöllinn á Seyðisfirði. Konan hafði legið þar allan daginn og kallað til fólks á vellinum án þess að nokkur heyrði í henni.

Björgunarsveitarfólk úr Ísólfi á Seyðisfirði kom innan skamms á staðinn og náði að staðsetja konuna í um 150 metra hæð með aðstoð dróna. Jóhann segir að afar erfitt hafi verið að staðsetja hvaðan köll konunnar komu, hún hafi verið mun nær golfvellinum en hann hélt fyrst. „Hljóðin virtust koma úr svo mikilli fjarlægð.“

Konan lá á syllu í vatni og var orðin mjög köld þegar björgunarmenn komust loks til hennar. Aðgerðin gekk hratt og vel fyrir sig, enda eins gott, á þessum árstíma dimmir hratt og talið er að konan hefði ekki lifað af nóttina. „Þetta var óskaplega erfitt, mikið myrkur og bratt. Björgunarsveitin kom fljótt og það var fólkið í henni sem á heiðurinn af því að hafa bjargað stelpunni.“

Kort frá Sviss

Konan var flutt til Reykjavíkur með sjúkraflugi. Jóhann segist hafa fregnað það síðar að læknir þar hafi með skjótum handtökum bjargað henni frá lömun. „Það er skemmtilegt að segja frá því að tengdadóttir mín var að tala við vinnufélaga sinn sem var að segja henni frá þessum lækni sem hefði bjargað stelpunni og þá sagði tengdadóttir mín: „Já, þetta er tengdapabbi minn sem heyrði í henni.“

Jóhann fékk síðasta haust kort frá svissnesku konunni þar sem hún þakkar honum. „Þá var hún komin til Sviss. Hún sagðist vera að byrja að læra að ganga aftur.“

Byrjaði í golfi síðasta vor

Það var að kvöldi 6. ágúst sem Jóhann var á golfvellinum. Sá dagur hefur víðtækari skírskotun í hans huga. „Þetta var afmælisdagur fimleikakennara míns, Björns í Firði. Ég var hjá honum frá því ég var 12 eða 13 ára gamall og þar til hann dó,“ segir Jóhann, sem var meðal þeirra sem gáfu út bók um ævi og störf Björns árið 2013.

Tilviljanirnar eru fleiri í þessari sögu. „Ég byrjaði bara í golfi í maí. Ég leit aldrei á golf sem íþrótt, ég sagði að ég gæti allt eins farið í saumaklúbb. Góður maður, Ómar Bogason, kom til mín síðasta vor og fékk mig til að ganga í golfklúbbinn. Ég fór að reyna að slá kúluna en hitti hana aldrei. Ég notaði kraftana eins og ég var vanur úr áhaldafimleikunum og lyftingunum sem ég stundaði hér áður fyrr.“

Jóhann stundar golfið af miklum áhuga og fer gjarnan tvisvar á dag, fyrir og eftir hádegi, á golfvöllinn. Það gerði hann til að mynda í gær. „Maður hefur ekkert annað að gera.“

Ánægður með að hafa átt þátt í björguninni

Jóhann fékk flest atkvæði í kjörinu á Austurfrétt en valið var milli 14 aðila. Að launum fær hann viðurkenningarskjal, gjafabréf í mat og gistingu á Gistihúsinu á Egilsstöðum og ársáskrift að Austurglugganum.

„Ég er ekki grobbinn en ég er ánægður með að hafa átt þátt í að stelpan bjargaðist. Það var gott að fara ekki heim án þess að sinna henni. Það voru hins vegar björgunarmennirnir sem höfðu fyrir því að ná henni. Það er gaman að fá þessa viðurkenningu en ég held ég ofmetnist ekki. Ég er hins vegar mjög þakklátur þessu fólki sem sýndi mér þessa virðingu.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.