Ítalskur pítsumeistari bakar fyrir gesti Glóðar

Veitingastaðurinn Glóð á Egilsstöðum opnaði á ný um síðustu helgi. Áherslan þar er á matargerð frá Miðjarðarhafinu, meðal annars pítsur eins og Ítalir gera þær. Mikið hefur verið lagt í að tryggja að þær séu þannig.

„Mig langaði að bjóða Austfirðingum að stíga inn í þennan heim, að fá pítsurnar eins og maður fær þær á Ítalíu,“ segir Þráinn Lárusson, eigandi Glóðar.

Pítsurnar á Glóð eru eldbakaðar í handsmíðuðum ofni sem fluttur var inn frá Róm. Ofninn er engin smásmíð, vegur 3,2 tonn. „Það eru ekki margir slíkir ofnar í umferð hérlendis. Þeir eru yfirleitt verksmiðjuframleiddir.

Ég er hins vegar sérvitur að eðlisfari. Ég átti svona ofn fyrir 30 árum, að ég helst þann næst fyrsta sem kom til landsins. Ég fékk hugmyndina að þessu öllu seint síðasta sumar og ákvað að leyfa mér að fara alla leið. Gera pítsur sem voru alvöru ítalskar og fara ekkert út fyrir þann ramma,“ segir Þráinn.

Þar þarf meira til en ofninn. Lykilhráefni, svo sem hveiti, ger, ostur og kjötálegg er flutt inn frá Ítalíu. Eins var ítalski pítsameistarinn, Remo Narfa, ráðinn til að baka pítsurnar. Sá hefur lokið námi sem pizzaiolo, sem er viðurkennd iðngrein á Ítalíu.

„Ítalirnir eru fastheldir á hvernig pítsan er gerð. Við vissum að Íslendingar væru hrifnir af humarpítsum og báðum hann um að hafa eina slíka á seðlinum. Hann horfði á okkur og sagði að það væri ekki pítsa. Það þurfti að beita fortölum til að hafa hana með.“

Á Glóð verður einnig hægt að fá „pizza bianca“ eða „hvítar pítsur“ sem er pítsa án sósu. „Ítalir nota yfirleitt ekki tómatsósu heldur maukaða tómata af ákveðinni gerð. Bianca pítsurnar eru stundum án bæði tómata og osts – og það eru nokkrar þannig á seðlinum hjá okkur. Sumum gestum okkar finnst þær frekar þurrar en það er lykilatriði að nota ólívuolíu með. Hún er mun mikilvægari en nokkurn tíman tómatarnir.“

Lykilatriðið í pítsunni, eða hreinlega pítsan sjálf, er deigið. „Það skiptir öllu máli og því er ekki sama hvernig það er gert. Fyrir Remo tekur ferlið við að búa það til 50 klukkustundir.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.