Orkumálinn 2024

Ítalir elska Gunnar Gunnarsson

Sögur skáldsins frá Skriðuklaustri, Gunnars Gunnarssonar, njóta mikillar hylli á Ítalíu þar sem þær hafa að undanförnu komið út í nýjum þýðingum.

Fjallað er um nýja útgáfu á Svartfugli, sem kom út í byrjun september, á menningarvefnum Doppiozero. Þar er Gunnari stillt upp við hlið Arnaldar Indriðasonar og bók Gunnars sögð fyrirrennari nýju norrænu glæpasögunnar.

Aðventa hefur einnig notið vinsælda og á sumum stöðum komist inn á metsölulista á því tímabili sem hún er nefnd eftir.

„Bókin kom fyrst út á ítölsku árið 2016 í þýðingu Mariu Valeriu d’Avino undir heitinu Il pastore d’Islanda. Forlagið heitir Iperborea og sérhæfir sig í norrænum bókmenntum. Kápuhönnun tókst einkar vel og sögunni fylgir formáli eftir Jón Kalman og eftirmáli eftir Alessandro Zironi, ítalskan prófessor.

Þessi ítalska útgáfa mæltist vel fyrir strax á fyrsta ári og fór í einum 8000 eintökum. Síðan þá er búið að þurfa að endurprenta oft og sjálfsagt heildarsalan að nálgast 20 þús. Sem telst gott fyrir þýdda bók eftir látinn höfund,“ segir Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar á Skriðuklaustri.

Aðventa er sú bóka Gunnars sem víðast hefur farið og er endurútgefin reglulega. Þannig hefur hún verið endurútgefin í einum tíu löndum undanfarinn áratug. Víðar en hérlendis tíðkast að lesa upp úr henni á aðventunni, meðal annars í Þýskalandi þar sem hún hefur ávallt verið vinsæl.

„Salan í Þýskalandi, þar sem hún kom fyrst út árið 1936, er enn í dag drjúg hvert ár, 2-3000 eintök hjá Reclam forlaginu. Íslenska sendiráðið í Berlín stóð fyrir upplestri árlega, þar til Covid-faraldurinn greip í taumarnar, fyrir fullu húsi. Í fyrra var fyrirlestrum streymt og mörg þúsund hlýddu á,“ segir Skúli Björn.

Hann vindur vonir við að sagan um Benedikt, Eitil og Leó komist fljótt á kvikmyndaform, en búið er að skrifa handrit að henni og þróunarstyrkur fékkst úr Kvikmyndasjóði í fyrra.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.