Íslenskan er gott söngmál

Íslenskt landslag og menning veittu bandaríska tónskáldinu Evan Fein innblástur þegar hann samdi tónlistina í óperunni Raven‘s Kiss, eða Koss hrafnsins, sem sýnd verður í Herðubreið á Seyðisfirði um helgina. Hann segir áhuga fyrir fágætum tungumálum, eins og íslensku, meðal söngáhugafólks vestan hafs.

„Við dvölum hjá vinum og fjölskyldumeðlimum í bæjum víða um land þegar við vorum að semja óperuna. Landslagið og staðhættir skila sér því inn í texta óperunnar.

Síðan eru ýmsir bútar úr persónuleikum fólksins og samskiptum þess á milli líka þar inni,“ segir Evan.

Hann samdi tónlistina í Kossi hrafnsins og er tónstjóri uppsetningarinnar á Seyðisfirði. Þorvaldur Davíð Kristjánsson er höfundur textans og er titlaður leikstjóri.

Þeir kynntust í Juilliard-listaháskólanum í New York þar sem Evan starfar í dag. Hægt er að setja hann í flokk Íslandsvina því hann hefur komið til landsins árlega undanfarin tólf ár. Þær heimsóknir hafa sett mark sitt á tónlistarsköpun hans.

„Landslagið hér er svo ólíkt því sem það er í Bandaríkjunum. Það er frumstætt og hrjóstrugt en líka brjálæðislega fallegt. Þessi áhrif reyni ég að kalla fram í tónlist minni. Það er því óhætt að segja að Ísland hafi haft mikil áhrif á tónlist mína undanfarinn áratug.“

Kaffidrykkja Íslendinga

Í Kossi hrafnsins er einnig að finna skírskotanir til íslenskrar menningarhátta, þar er bökuð hjónabandssæla, daðrað í berjamó og drukkin býsnin öll af kaffi.

„Við reyndum að finna hluti sem persónurnar hefðu gert. Ég man eftir að ég var með vinafólki mínu vestur á fjörðum og þá var einn sem festi gleym-mér-ei í peysuna mína. Mér hefði aldrei dottið í hug að gera það en ákvað strax að nota það við tækifæri.

Við fjöllum líka um kaffidrykkju. Íslendingar eru frægir fyrir gestrisni sína. Ég man að ég heimsótti Fáskrúðsfjörð með honum á Frönskum dögum og við fórum um og heimsóttum fjölskyldu hans. Við fórum í fimm eða sex heimsóknir þennan dag og spiluðum fyrir fólki. Okkur var alls staðar gefið sterkt kaffi og í lok dags skulfu hendur mínar svo af koffíninu að ég gat ekki lengur spilað á píanóið.“

Óperan er á ensku en þar koma fyrir íslensk staðar- og mannanöfn. Evan bendir á að það hafi verið verk Þorvaldar að velja, eða búa til, nöfnin en þau þurftu að henta til söngs. „Sum íslensk nöfn, til dæmis Hreinn, henta ekki til söngs. Við hugsuðum líka út í það að þegar óperan var fyrst sett upp þá var hún sungin af bandarískum söngvurum. Það kom sér vel að hafa unnið með Þorvaldi sem samdi ljóð á íslensku sem voru sungin. Ég hafði því bæði þjálfað söngvara í að syngja íslensku og tónsetja íslensk orð,“ segir Evan.

Áhugi fyrir fágætum tungumálum

Óperur eru gjarnan sungnar á ítölsku, frönsku eða rússnesku. Evan segir þó að íslenskan henti vel til söngs og áhugi sé fyrir framandi tungumálum meðal tónlistaráhugafólks.

„Ég held að íslenskan sé gott söngmál. Sérhljóðarnir eru mjög hreinir og hún fylgir skýrum reglum. Vissulega eru ákveðin hljóð í henni sem óperusöngvarar tileinka sér ekki þegar þeir læra önnur tungumál. Við fyrstu sín lítur hún út eins og þýska og því leita margir söngvarar í þau hljóð, en þeim þarf að gleyma til að syngja íslenskuna. Ég vona að einhver taki sig til og skrifi bók um hvernig eigi að syngja íslensku, eins og til er fyrir önnur tungumál.

Sum íslensku verkanna minna eru meðal þeirra sem mest eru sungin af bandarískum söngvurum. Fólk er alltaf áhugasamt um fágæt tungumál. Ég vona að íslenskir höfundar geri verk sín aðgengilegri því það er að minnsta kosti áhugasamur áheyrendahópur í Bandaríkjunum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.