Ísinn nefndur eftir sögupersónum úr Vopnfirðingasögu

Í Hjáleigunni, kaffihúsinu við hlið minjasafnsins að Bustarfelli í Vopnafirði, má í sumar bragða á heimagerðum rjómaís þar sem bragðtegundirnar eru nefndar eftir sögupersónunum úr Vopnfirðingasögu.

„Ég byrjaði á þremur persónum og svo er hægt að þróa ísinn frekar. Þetta er einfaldur rjómaís eins og við þekkjum hann frá jólunum og síðan bragðbættur eins og ég kýs.
Ég á eftir aðalsögupersónuna, Brodd-Helga. Ég er að þróa hann, sá ís verður bomba. Við eigum líka allar konurnar eftir. Vopnfirðinga-saga er ein af fáum Íslendingasögum þar sem þær eru mjög áberandi,“ segir Berghildur Fanney Hauksdóttir, sem í sumar rekur kaffihúsið.

Þorsteinn hvíti, Svartur og Geitir

Bragðtegundirnar eru þrjár. Vanilluísinn heitir Þorsteinn hvíti. Sá var afi Brodd-Helga, kom fyrstur úr ættinni til Íslands og bjó að Hofi. „Um Þorstein hvíta er sér saga. Hann var góð sál og góður maður,“ segir Berglind Fanney.

Karamelluísinn er nefndur eftir Geiti sem bjó í Krossavík, en fornsagan snýst að miklu leyti um deilur hans og Brodd-Helga. Súkkulaðiísinn heitir svo Svartur. „Svartur kemur mikið við sögu í Vopnfirðingasögu. Hann var gerður útlægur, fór upp á Smjörvatnsheiði en sótti þaðan niður í Vopnafjörð og stal sauðfé, meðal annars fé frá fjölskyldu Brodd-Helga. Sagan segir að Brodd-Helgi hafi 12 vetra gamall sett steinhellu í brók sér, tekið spjót í eina hendi, öxi í hina og ætt upp á heiðina þar sem hann vó Svart.“

Reynir að hafa kökusneiðarnar ekki tíkarlegar

Berghildur Fanney er ekki ókunnug Bustarfelli þar sem hún var um árabil safnstjóri. Þetta er hins vegar í fyrsta sinn sem hún rekur kaffihúsið í eigin nafni. „Ég reyni að bjóða upp á fjölbreytta menningu og gott kaffihús við hliðina á því sem er, að mínu viti, fallegasti torfbær landsins. Ég reyni að vera með þannig kaffihús að fólk langi virkilega til að taka sér tíma til að keyra hingað, heimsækja okkur, fá sér kaffi, njóta listarinnar, safnsins og sveitarinnar. Ég reyni líka að stilla verðinu í hóf.

Ég reyni líka að heiðra ömmu mína með því að hafa sneiðarnar ekki tíkarlegar. Við fórum einhvern tímann saman á kaffihús og henni fannst sneiðin sem hún fékk heldur tíkarleg.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.