Orkumálinn 2024

„Iron Maiden er venjulegasta fólk sem ég hef kynnst“

Norðfirðingurinn Draupnir Rúnar Draupnisson fékk að upplifa draum margra þegar hann var ráðinn flugþjónn í tónleikaferð bresku þungarokkssveitarinnar Iron Maiden. Draupnir segir það hafa verið sérstakt að upplifa umstangið í kringum sveitina en ekki síður hversu vingjarnlegir hljómsveitarmeðlimirnir voru.

Tvö ár eru síðan Draupnir fór með hljómsveitinni í fjögurra mánaða tónleikaferð þar sem komið var við í yfir 50 borgum 30 löndum. Til ferðarinnar var leigð breiðþota frá íslenska flugfélaginu Atlanta.

Það var hljómsveitin sjálf sem óskaði eftir að sem flestir í áhöfn hefðu íslensk vegabréf. Það kall kom um miðjan febrúar og eftir það gengu hlutirnir hratt fyrir sig. Draupnir var kominn í þjálfun fyrir ferðina mánuði síðar, þá búinn að fá sig lausan frá Icelandair.

„Hvar sem ég kom voru allir sammála um að þetta væri einstakt tækifæri sem byðist ekki aftur í lífinu og að sjálfsögðu væri ég að fara,“ segir Draupnir Rúnar í nýjasta þætti hlaðvarpsins Norðfirðings. Stjórnandi er Daníel Geir Mortiz en hlaðvarpið er sent út í samvinnu við Síldarvinnsluna og Austurfrétt.

Vandræðalaust ferðalag

Draupnir segir það hafa verið áhugavert að upplifa umfangið í kringum Iron Maiden. Lífverðir hafi fylgt sveitinni eftir og á sumum stöðum hafi aðdáendur beðið utan við hótelin sem hópurinn dvaldi á. Hljómsveitarfólkið hafi hins vegar verið fullkomlega laust við stjörnustæla.

„Við komumst að því að þetta er venjulegasta fólk sem ég hef á ævinni kynnst. Í ferðinni voru hljómsveitarmeðlimir með fjölskyldur sínar og starfsfólk, 50 manns í 500 manna flugvél þannig það var rúmt um alla.

Þetta var svo laust við vesen. Ég þurfti aldrei að gefa súrefli, setja plástur eða útvega verkjatöflu sem ég geri á hverjum degi í venjulegu áætlunarflugi.“

Á rúntinum með Bruce Dickinson

Söngvarinn Bruce Dickinson er áhugamaður um flug og hefur meðal annars flogið fyrir íslensk flugfélög í millilandaflugi.

„Hann flaug alla leggina nema einn, milli Seattle og Los Angeles. Hann varð eftir til að fara á flugsýningu. Ég hef aldrei kynnst öðrum eins áhugamanni um flug. Stundum komu flugmenn frá Íslandi sem voru kannski með okkur í tvær vikur en fengu ekki að gera neitt.

Hann er flottur og klár náungi og ekkert snobbaður. Þegar hann var að fljúga til Íslands fór hann oft niður á Keflavíkurhöfn til að dorga.

Við settumst einu sinni saman í anddyri hótelsins og ég spurði hann hvað hann hefði verið að gera. Hann sagðist hafa farið upp á herbergi, straujað skyrtuna sína og lagt sig. Ekki einu sinni við straujuðum skyrturnar okkar, það var starfsfólk í þessu.

Öðru sinni hitti ég hann og spurði hvort hann hefði farið í klippingu. Hann svaraði að hann hefði litið í spegilinn og ákveðið að klippa sig. Ég spurði hvort hann hefði klippt sig sjálfur og svarið var já. Einu sinni var ég líka á leið niður á strönd að hitta vinkonu mína. Hann heimtaði að fá að skutla mér. Það var upplifun að rúnta með Bruce Dickenson í blæjubíl í Los Angeles.“

Frá Indlandi til Grímseyjar

Draupnir hefur tekið sér ýmislegt fyrir hendur á starfsævinni en hann er menntaður grunnskólakennari. Hann hefur meðal annars kennt á Indlandi og í Grímsey. Á síðarnefnda staðnum leysti hann af skólastjórann sem fór í barneignarleyfi.

„Ég eignaðist nýja 70 manna fjölskyldu. Mér fannst æðislegt að búa í Grímsey og leiddist ekki eina sekúndu. Þar var mikil samheldni, allir að hittast og spila.“

Aðrar áskoranir fylgja því að kenna í litlum skóla, alls voru 16 krakkar í leik- og grunnskóla í Grímsey, þegar Draupnir var þar veturinn 2010-2011. Í litlum skólum er árgöngunum gjarnan kennt saman. „Í stærri skólum kennir maður 100 nemendum það sama í 3 hollum. Í Grímsey var ég að uppi á töflu að kenna einum að deila og sagði honum að vinna í bókunum og horfa eitthvert annað.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.