Orkumálinn 2024

Innsýn í heim Huldu í tali og tónum

Tónlistarkonurnar Helga Kvam og Þórhildur Örvarsdóttir koma um helgina austur á Eskifjörð annað árið í röð með síðsumartónleika. Að þessu sinni flytja þær dagskrá sem helguð er skáldkonunni Huldu. Helga segir hvatann að dagskránni hafa verið að halda minningu skáldkonunnar á lofti.

„Hulda er konan sem semur ættjarðarljóðið okkar „Hver á sér fegra föðurland.“ Hún er þjóðskáld en samt veit enginn neitt um hana því minningu hennar hefur ekki verið haldið á lofti.

Því rann okkur blóðið til skyldunnar að kynna fólk fyrir henni,“ segir Helga Kvam, píanóleikari. Hún flytur á sunnudag dagskrá tileinkaða Huldu með söngkonunni Þórhildi Örvarsdóttir í Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskifirði.

Unnur Benediktsdóttir Bjarklind fæddist þann 6. ágúst 1881 og lést 10. apríl 1946. Hún skrifaði ljóð og prósa undir skáldanafninu Hulda.

Á tónleikunum verða flutt lög íslenskra tónskálda við texta Huldu ásamt frumflutningi á tónlist eftir Daníel Þorsteinsson sem hann samdi sérstaklega fyrir Helgu og Þórhildi fyrir þessa dagskrá. Tónlistinni er fléttað saman við frásagnir af lífi Huldu og verkum hennar. „Við gefum fólki innsýn í Hulduheiminn í tali og tónum,“ segir Helga.

Helga og Þórhildur hafa starfað saman sem dúett í nokkrum árum og haldið þematengda tónleika. Í fyrra komu þær austur á Eskifjörð um ágúst með tónleika sem byggðu á íslenskum söngperlum.

„Það var gaman og því um að gera að koma aftur. Við hvetjum fólk til að koma á sunnudag og eiga notalega, skemmtilega og fræðandi stund með yndislegri tónlist,“ segir Helga.

Tónleikarnir hefjast klukkan fimm á sunnudag.

Mynd: Daníel Starrason

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.