„Hvernig verðleggur maður ástríðu mömmu sinnar?“

„Könnusafnið var í eigu móður minnar, Birnu Þórunnar Aðalsteinsdóttir, eða Binnu í Sigtúni á Borgarfirði eystra,“ segir Ragnhildur Sveina Árnadóttir á Egilsstöðum, aðspurð út í sérstakt safn sem auglýst var til sölu á síðunni Til sölu á Austurlandi fyrir stuttu.

Safnið telur tæpar áttatíu könnur og er aðeins falt í heilu lagi. Hver er sagan á bak við þetta sérstæða safn?

„Ég fékk könnusafnið í mína vörslu þegar æskuheimilið var tæmt eftir lát beggja foreldra minna. Bróðir minn, Þröstur Fannar, flutti þangað inn og hafði lítinn áhuga á að hafa þessar könnur upp um alla veggi, mér til einstakrar ánægju að sjálfsögðu. Mamma hafði alltaf áhuga á fallegum munum og átti lengi nokkrar könnur inn í skáp. En það var um aldamótin að hún byrjaði að safna þeim fyrir alvöru. Það voru allir að senda henni könnur, alveg ótrúlegasta fólk. Það endaði með því að pabbi þurfti að smíða hillur nánast allan hringinn í eldhúsinu heima. Mamma var stolt af þessu og þetta vakti mikla lukku gesta og gangandi og oft var hlegið þegar mamma var að velja könnu undir kakóið, teið eða kaffið,“ segir Ragnhildur Sveina, eða Ragga eins og hún er alltaf kölluð.


Plássleysi ástæða auglýsingarinnar
Ragga segir plássleysi einu ástæðu þess að hún ákvað að auglýsa safnið til sölu. „Það rífur í hjartað að hafa svona gull pakkað í kössum. Hvernig verðleggur maður ástríðu mömmu sinnar, það er ekki hægt. Fyrst var minn draumur að ég gæti haft þetta hjá mér og ég hafði það uppi í stuttan tíma á heimili mínu, en ég hef bara ekki nægt pláss. Hinn draumurinn var að eiga það sjálf en geta sett þetta á eitthvað krúttlegt kaffihús eða veitingahús þar sem það gæti verið til sýnis.“


Heldur tveimur könnum eftir sjálf
Veit Ragga til þess að einhver ákveðin kanna hafi verið í uppáhaldi hjá móður hennar? „Ég held nú að mamma hafi ekki getað gert uppá milli þeirra en auðvitað voru þessar elstu í mestu uppáhaldi. Sjálf held ég mest upp á tvær könnur og þær fá að vera til sýnis hjá mér. Mömmu-könnurnar fá stundum kaffi í sig við sérstök tækifæri og þá nálgast ég alltaf mömmu á minn hátt, þar sem við erum (vorum) báðar miklar kaffikonur.“


Munir Birnu Þórunnar til sýnis á Gistihúsinu Egilsstöðum
Ragga segir könnurnar alls ekki það eina sem móðir hennar safnaði. „Hún safnaði til dæmis allskyns gömlum munum sem voru um allt æskuheimili okkar systkina og gerði það svo sannarlega fallegt. Ég var svo heppin að gullmolarnir Hulda Daníelsdóttir og Gunnlaugur Jónasson á Gistihúsinu Egilsstöðum leyfa mér að hafa þá til sýnis þar og þar eiga þeir svo sannarlega heima og mér líður svo vel að koma á þann stað og sjá þá útum allt.“


Safnar aðeins minningum í dag
Hefur Ragga erft söfnunaráhugann? „Guð minn góður já, en það hefur þó minnkað með árunum og við hverja flutninga. Það voru alveg ótrúlegustu hlutir sem ég varð bara að eignast og hristi stundum hausinn eftir sum kaup hjá mér. Það sem ég safnaði helst voru englastyttur, ég var umvafin englum. Ég er hætt þessari söfnunaráráttu og safna bara minningum í dag.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar