Orkumálinn 2024

Hver einasti viti landsins heimsóttur einu sinni á ári - Myndir

Starfsmenn Vegagerðarinnar heimsækja hvern einasta vita landsins einu sinni á ári til að yfirfara þá. Eitt stærsta verkefni sumarsins var í Seley í Reyðarfirði og ein skemmtilegasta stundin við Bjarnarey.

„Þetta gekk ágætlega. Okkur var lofað 20 stiga hita á Seyðisfirði en það klikkaði. Við sáum ekki sólna fyrr en við vorum komnir framhjá firðinum,“ segir Guðmundur Jón Björgvinsson, annar tveggja starfsmanna Vegagerðarinnar sem í júní fóru hringinn í kringum landið með varðskipinu Tý til að vitja allra þeirra vita sem aðeins eru aðgengilegir frá sjó.

Alls voru verkefnin í ferðinni 47, þar af var komið við í 36 vitum. Vegagerðin rekur alls um 100 vita sem keyrðir eru áfram með rafmagni frá sólarsellum, rafgeymum eða rafstreng frá landi.

„Við höfum sett fjargæslu á nokkra þannig við fáum skilaboð ef það kemur upp bilun. Þeim stöðum fjölgar alltaf en það losar okkur ekki undan því að kíkja í vitana einu sinni á ári.“

Eitt af stærri verkefnunum var í Seley í Reyðarfirði þangað sem sóttir voru 19 rafgeymar og 16 sóttir í staðinn. Vitað var að einn geymanna vær bilaður og því ákveðið að skipta um alla. Farið var með gúmmíbát frá varðskipinu að eyjunni og geymarnir bornir fram og til baka 50 metra leið.

Það var ærið verk. Geymarnir sem teknir voru vógu 30 kíló hver en þeir sem komu í staðinn 23 kg. Guðmundur Jón og félagi hans Ásþór Ingi Ólafsson nutu aðstoðar varðskipsmanna við flutningana. „Við vorum ágætlega þreyttir í dagslok þótt varðskipsmenn hefðu borið hitann af flutningunum.“

Hringferðin með Tý tók um tvær vikur. Í kjölfarið var svo lagt af stað í þá vita sem aðgengilegir eru frá landi. Slökkt er á vitum hérlendis frá mánaðarmótum maí/júní til 15. júlí, á meðan dagurinn er lengstur.

Guðmundur Jón segir ferðalagið í sumar hafa gengið ágætlega og þrátt fyrir að Seyðisfjörður hafi falið sig í þokunni var ein besta stundin fyrir austan. „Við fengum mjög gott veður þegar við fórum í Bjarnarey. Á leiðinni út í varðskipið aftur voru hnúfubakar í kringum bátinn hjá okkur. Þetta var skemmtilegasti dagurinn.“

Myndir: Guðmundur Jón Björgvinsson

Bjarnarey1 Web
Bjarnarey2 Web
Nordfjardarhorn Web
Papey1 Web
Papey2 Web
Seley2 Web
Seley3 Web
Seley Web


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.