„Hver einasta króna rennur óskipt til Brakkasamtakanna“

„Fólk er alltaf tilbúið til þess að láta gott af sér leiða og margt smátt gerir eitt stórt,“ segir Aron Steinn Halldórsson, formaður nemendaráðs Menntaskólans á Egilsstöðum, en félagið stendur fyrir góðgerðarviku í skólanum sem hófst í dag.


Er þetta í annað skipti sem nemendafélagið stendur fyrir góðgerðarviku, sú fyrri var árið 2016 og þá söfnuðust 240 þúsund krónur til geðheilbrigðismála á Austurlandi.

„Að þessu sinni rennur allur ágóði góðgerðarvikunnar til Brakkasamtakanna á Íslandi,“ segir Aron Steinn, en hér má sjá viðtal við Berglindi Eir Ásgeirsdóttur, en hún og vinkona hennar rökuðu af sér hárið fyrir rúmri viku til styrktar samtökunum. Móðir Berglindar hafði barist lengi við krabbamein og lést síðastliðin laugardag, nokkrum dögum eftir að viðtalið var tekið.

„Dagskrá vikunnar er vegleg, við verðum með tombólu og fatamarkað svo eitthvað sé nefnt. Þá verða Brakkasamtökin kynnt á miðvikudaginn. Alla vikuna verður svo hægt að skora á náungann að gera eitthvað fyrir ákveðna peningaupphæð. Hver einasta króna af þessu öllu saman rennur svo óskipt til Brakkasamtakanna,“ segir Aron Steinn.

Aron Steinn hvetur alla til þess að skora á sem flesta. „Fólk er alltaf tilbúið til þess að láta gott af sér leiða og marg gott gerir eitt stórt.“

Styrktarreikningur Brakkasamtakanna;
Rn: 0305-13-110137
Kt: 440283-0479

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.