Húsgögn sem nýtast einnig sem leikföng

Kvenfélag Reyðarfjarðar styrkti nýverið Foreldrafélag leikskólans Lyngholts á Reyðarfirði til kaupa á húsgögnum sem einnig nýtast sem leikföng og eiga að nýtast til að örva leik- og hreyfiþroska barnanna.

„Kvenfélagið er þekkt fyrir velvilja og rausnarlega styrki til stofnana, einstaklinga og félagasamtaka á svæðinu. Það kom okkur þó skemmtilega á óvart að hljóta fá þeim 100 þúsund króna styrk.

Við sendum þeim hinar bestu þakkir fyrir, við vitum að þetta kemur til með að nýtast vel,“ segir Guðlaug Björgvinsdóttir, formaður foreldrafélagsins.

Styrkurinn nýtist til kaupa á Bobles-vörum sem eru í raun barnahúsgögn sem eru hönnuð þannig að hægt sé að nýta þau sem leikföng. Vörurnar eru hannaðar með það í huga að efla grunnhreyfiþroska barna og hafa fengið meðmæli sjúkra- og iðjuþjálfara, meðal annars iðjuþjálfara sem starfar við Lyngholt.

Leikföngin er flokkuð sem opinn efniviður þar sem hver hlutur hefur ekki einn fyrirframákveðinn tilgang og hægt að nota á óteljandi mismunandi vegu ef hugmyndaflugið fær að ráða för. Þar með eiga þau að ýta undri sjálfsprottinn leik sem eflir ímyndunarafl barna.

Um þessar mundir er verið að stækka leikskólann og hefur íþróttasalnum verið breytt í deild. Leikföngin nýtast því vel til að auka möguleika og fjölbreytni í hreyfiæfingum á meðan því stendur.

Frá afhendingu leikfanganna, frá vinstri: Jóhanna Sigfúsdóttir fra kvenfélaginu, Guðlaug Björgvinsdóttir frá foreldrafélaginu, Marleen Meirlain og Harpa Vilbergsdóttir frá kvenfélaginu og Sigrún Yrja Klörudóttir frá foreldrafélaginu. Mynd: Aðsend

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.