„Hún var alltaf að“

Sýning á bútasaumsverkum Önnu Maríu Sveinsdóttur á Stöðvarfirði var haldin í Stöðvarfjarðarskóla um miðjan september. Sýningin var haldin til minningar um Önnu Maríu, sem hefði fagnað 70 ára afmæli sínu um þetta leyti, en hún lést sumarið 2016.


„Það eru nokkur ár síðan ég ákvað, að þegar Maja yrði sjötug þá ætlaði ég að stinga því að henni að hún myndi halda sýningu á öllum þeim bútasaumsverkum sem hún hefur unnið. Fljótlega eftir að hún lést ákvað ég endanlega að gera þetta, en sjálf var hún vinamörg og mikil veislumanneskja,“ segir Ásta Snædís Guðmundsdóttir, vinkona Önnu Maríu, eða Maju eins og hún var gjarnan kölluð.

Átti körfu merkta „dánarbúið“
Úr varð, að Ásta Snædís og fleiri aðstandendur Maju settu upp sýninguna í Stöðvarfjarðarskóla, þar sem hluti þeirra bútasaumsverka, sem Maja hafði saumað í áranna rás voru til sýnis.

„Þetta var alveg gríðarlegt magn, en við vorum með um 150 stykki og þar af um 40 stór teppi, auk dúka og annarra muna. Mest var frá Stöðvarfirði, en ég vissi af fjölmörgum stykkjum út um allt, og líklega hefur ekki nema þriðjungur verka hennar verið á sýningunni. Maja átti stóra bastkörfu heima hjá sér sem hún kallaði „dánarbúið“, en þangað setti hún allt sem hún kláraði en gaf ekki strax frá sér. Við vorum með þá körfu á sýningunni, merkta sem slíka.“

„Henni féll aldrei verk úr hendi“
Erfitt er að gera sér í hugarlund hve margar vinnustundir liggja að baki slíku magni handverks. „Það er ekki hægt að ímynda sér það einu sinni, en Maja var rosalega dugleg, hún var alltaf að. Stundum kom hún til mín á kvöldin og þá hafði hún alltaf eitthvað með sér og sat til dæmis og faldaði meðan við spjölluðum. Eins þegar hún var á ferðalögum, ja eiginlega hvert sem hún fór, henni féll aldrei verk úr hendi.“

Ásta Snædís segir að bútasaumurinn hafi alltaf verið Maju ofarlega í huga, en hún var til dæmis í hópi bútasaumskvenna á Austurlandi, sem hittist mánaðarlega yfir vetrarmánuðina. Einnig hafi hún farið í sérstakar bútasaumsferðir, bæði innanlands og utan, meðal annars til Kanada, og til Englands þar sem hún var á ferð aðeins þremur vikum áður en hún lést.

„Hún var alltaf að skoða mynstur og bækur. Bútasaumur er list, og mér finnst svo skemmtilegt að sjá hvernig hver og ein vinnur misjöfn verk og hefur sinn stíl. Ég keypti oft handa henni efni þegar ég var að ferðast og hugsaði stundum; Þetta er „Majulegt“ efni. Svo átti hún allskonar fín efni sem ég kann ekki að nefna og sum þeirra tók hún reglulega upp úr kommóðunni, bara til að skoða og klappa þeim. Mörg þeirra hafði hún kannski treint sér í tíu ár áður en hún að saumaði úr þeim.“


Magnið kom öllum á óvart
Ásta Snædís segir að mætingin á sýninguna hafi verið mjög góð. „Það komu meira að segja konur alla leið frá Hornafirði. Það var gaman að fylgjast með þeim, þær skoðuðu verkin á annan hátt, út frá saumaskap og hinu og þessu, sem ég kann ekki að nefna, ég kann ekkert á bútasaum en dáist bara að honum. Það kom öllum á óvart hve mikið magn þetta var, meira að segja hennar nánasta fólki. Ég er afskaplega ánægð að hafa látið verða af þessu, þó svo ég hefði vissulega frekar viljað hafa hana með mér í ráðum. Mér fannst hún verðskulda virðinguna, og að fólk fengi að njóta verka hennar.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.