Hugurinn getur komið þér í gegnum hvaða áskorun sem er

Fimmtán ræðarar frá Texas í Bandaríkjunum fóru í gær á róðrabrettum frá Egilsstöðum inn í Atlavík. Leggurinn var hluti af Íslandsferð þeirra sem farin er til að vekja athygli á og safna fé til styrktar sem styðja við fjölskyldur krabbameinssjúklinga.

„Þegar í ljós kemur að einhver í fjölskyldunni er haldinn krabbameini þá myndast bylgjur innan fjölskyldunnar og það kemur rót á huga aðstandenda.

Samtökin okkar kallast Flatwater Foundation (Stöðuvatnssamtökin) því eftir öldurótið þarf að komast aftur á lygnan sjó. Margir gleyma að hugsa um hugann en við viljum fá fólk til að hugsa hvað þarf til að koma aftur kyrrð á hann, því hugurinn getur komið þér í gegnum hvaða áskorun sem er,“ segir Mark Garza, stofnandi og framkvæmdastjóri Flatwater.

Flatwater hefur staðið fyrir árlegum róðrum til að vekja athygli á málstað sínum og safna fé í Texas frá árinu 2010. Þetta er í annað skipti sem hópur frá samtökunum fer út fyrir Bandaríkin en árið 2015 var róið eftir skurðum milli 11 borga í Hollandi. „Við höfum lært það á ferðum okkar að fólk tengir við boðskap okkar hvar sem er,“ segir Mark.

Hópurinn ætlar sér að róa 100 km á Íslandi á fimm dögum. Fyrst var róið í Reykjavík, í fyrradag á Jökulsárlóni, á Leginum í gær og í dag liggur leiðin norður í Eyjafjörð. Auk ræðaranna fylgja hópnum sex sjálfboðaliðar sem sjá um utanumhald og leiðsögumenn frá Arctic Surfers sem aðstoða við að finna bestu og öruggustu leiðirnar.

Leggurinn í gær var meðal annars valinn með hliðsjón af sterkum austanvindi í von um að komast aðeins lengra en 20 km á einum degi með mögulega minni fyrirhöfn. Að meðaltali er róið í 3-4 tíma á dag. „Þetta er ekki kapphlaup, heldur snýst allt um samveruna og að komast saman í gegnum verkefnið.“

Ræðararnir sækja um að komast í ferðina og þurfa bæði að segja sögu sína af tengslum við krabbamein og safna um einni milljón króna í áheit. „Það er enginn atvinnuræðari hér en allir skilja málefni,“ segir Mark.

Hann var ánægður með ferðalagið um Ísland þegar Austurfrétt ræddi við hann áður en lagt var á Löginn í gær. „Umhverfið hér er svo fjölbreytilegt en Ísland er besti staður fyrir róður sem ég hef nokkru sinni heimsótt. Hér eru svo margir staðir þar sem hægt er að róa á. Það er stórkostlegt að vera úti á vatninu og horfa þaðan á þetta stórkostlega land.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.