„Hugmynd lét mig ekki í friði“

Athafnakonan Margrét Guðjónsdóttir hefur í rúmt ár rekið gistiheimilið Við Lónið í 110 ára gömlu húsi í miðbæ Seyðisfjarðar. Margrét er einnig að baki hönnunarversluninni Gullabúinu sem verður fimm ára næsta vor. Þátturinn Að austan á N4 leit í heimsókn fyrr í haust. 

 


Gistiheimilið er á Norðurgötu 8 en þar var Gullabúið áður. „Ég rak búðina á miðhæðinni og það stóð ekkert til að fara í þennan bransa. Ég fékk vaska sveina til að aðstoða mig við að bera mublur og annar þeirra spurði mig af hverju ég keypti ekki húsið sem hafði þá verið lengi á sölu. Það var kominn tími á endurbætur en hugmyndin lét mig ekki í friði. Því fór ég á stúfana og kynnti mér málið og nokkrum mánuðum síðar keyptum ég og maðurinn minn húsið,“ segir Margrét.
Húsið er sögufrægt, tilheyrir norsku húsunum sem flutt voru til Seyðisfjarðar í byrjun 20. aldarinnar. Það var reist árið 1907 og hefur síðan gegnt ýmsum hlutverkum, hýsti skrifstofur Kaupfélagsins, verslun Villa og Badda og fleira.


Mikill ævintýravetur

Margrét og maður hennar, Brynjar Skúlason, keyptu húsið á vormánuðum 2015 en endurbæturnar fóru ekki á fullt fyrr en í lok árs. „Við vorum allt haustið í skítagallanum að gera klárt fyrir gengið sem mætti með okkur rétt fyrir áramótin. Við fengum frábæra drengi með okkur og þetta varð mikill ævintýravetur. Það var skemmtilegt að mæta í vinnuna og oft ýmis uppátæki í gangi. Það var enginn vanur smiður í hópnum þótt einhverjir hefðu reynslu þannig við lærðum jafnóðum.“

Hún segir að skipt hafi máli að gera sögu hússins góð skil við endurbæturnar. „Við vildum leita í upprunann og fórnuðum stóru verslunargluggunum sem snéru að Norðurgötunni fyrir glugga sem líktust þeim upprunalegu.“

Hönnunin var unnin í samstarfi við arkitektastofuna Kubbafabrikkuna í Kaupmannahöfn en Seyðfirðingurinn Símon Ólafsson er aðalsprautan í stofunni.


Flytja inn með Norrænu

Gistiheimilið opnaði sumarið 2016 og segir Margrét að viðtökurnar hafi verið góðar. „Þetta er stórglæsilegt hús á besta stað í bænum, milli Lónsins og Norðurgötunnar. Við höfum fengið rosalega fínar umsagnir og ég upplifi mikla gleði með land okkar og þjóð.“

Auk þess að reka Við Lónið er Margrét formaður bæjarráðs á Seyðisfirði og er að baki Gullabúinu sem flutti í annað hús í götunni, sem vekur ekki síður athygli. Áherslan þar er á vöru úr fjórðungnum og hönnunarvöru frá Skandinavíu sem flutt er inn beint með Norrænu. „Við vorum þrjár sem vorum mikið saman í fæðingarorlofi 2012. Við vildum skapa tækifæri fyrir okkur sjálfar og auka þjónustu og lífsgæði á Seyðisfirði þannig við ákváðum að opna búð vorið 2013.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar