Orkumálinn 2024

„Höldum áfram meðan við náum að lifa af þessu“

Rósmarý Dröfn Sólmundsdóttir stendur vaktina í versluninni og veitingastaðnum Brekkunni á Stöðvarfirði flesta daga. Hún segist finna fyrir miklu þakklæti í garð verslunarinnar sem er mikilvægur samkomustaður í þorpinu.



„Ég er Stöðfirðingur, fædd og uppalin í Sandgerði en ættuð af Ströndum,“ segir Rósmarý Dröfn og hlær sínum smitandi hlátri, aðspurð að því hvar ræturnar liggi. Hún hefur búið meira og minna á Stöðvarfirði í tæp þrjátíu ár og hefur síðastliðin þrettán rekið verslunina og veitingastaðinn Brekkuna ásamt Ástu Snædísi Guðmundsdóttur. Þær Rósmarý og Ásta opnuðu Brekkuna í apríl 2005, en þá hafði engin verslun verið á staðnum í nokkra mánuði, eða frá því að Stöðfirzka verslunarfélagið lokaði. Í dag eru þær með einn fastan starfsmann í vinnu og tvo í hlutastarfi sem skipta með sér helgunum.

„Ásta hafði gengið með þessa hugmynd í nokkurn tíma og viðraði hana við mig þegar við unnum saman í frystihúsinu. Hún var svo farin að bakka með hana, sá ekki fram á að hún gengi upp fyrir einstæða móður eins og hana. Það má svo segja að það sé mínum fyrrverandi að þakka að við kýldum á þetta, en hann taldi góða hugmynd að við færum í þetta með henni, það væri þá í það minnsta verslun á staðnum. Ég ætlaði þó ekkert að vinna hérna sjálf, enda sjálf í vinnu í frystihúsinu,“ segir Rósmarý sem hóf svo störf í Brekkunni þegar frystihúsinu var lokað sumarið 2005.


„Við höfum frá upphafi litið á Brekkuna sem neyðarbúð“
„Það var strax brjálað að gera fyrsta sumarið. Auðvitað hefur íbúum fækkað síðan þá. Við höfum frá upphafi litið á Brekkuna sem neyðarbúð; bara að fólk geti komið til okkar og náð í helstu nauðsynjar, en flestir fara reglulega í lágvöruverslanir á nærliggjandi stöðumog gera stærri innkaup. Það þykir okkur bæði sjálfsagt og eðlilegt, enda hefur það aldrei verið ætlun okkar að keppa við þær verslanir, við höfum enga burði til þess. Heimamenn eru duglegir að versla við okkur og það er auðvitað mikilvægt. Það er mikið af eldra fólki búsett á staðnum og gott fyrir það að þurfa ekki að rjúka á næstu firði eftir mjólkinni sinni.“

Rósmarý segir að nafnið Brekkan sé tilkomið vegna nafnasamkeppni sem þær Ásta stofnuðu til við upphaf rekstursins. „Ég bjó í húsi sem stóð í brekku. Húsið hennar Ástu stendur í brekku, sem og þetta hús. Það var einn ágætur maður sem kom með þessa tillögu og okkur leist vel á hana. Annar sagði að réttast væri að við nefndum okkur „brussurnar“. Við vorum ekki til í það þá, en í dag þætti okkur það bara fyndið.“


Okkur finnst rigningin góð
Talið berst að auknum ferðamannastraumi síðastliðin ár. „Flæði ferðamanna hefur gerbreyst á þessum tíma, það er mun meira allt árið. Við reyndum um tíma að fá skipulögðu rútuferðirnar á sumrin til okkar í mat, en það hentaði okkur ekki og við stílum bara meira inn á lausatraffíkina. Eins og það hljómar öfugsnúið þá var eiginlega of gott veður síðasta sumar, en þá var mun minna í veitingasölu hjá okkur en vanalega, fólk var meira að grípa með sér kókómjólk og kex til þess að setjast með út í náttúruna og borða. Á rigningardögum var aftur á móti brjálað að gera, rigningin kemur okkur betur hvað þetta varðar.“


Lítur á reksturinn sem sína samfélagslega skyldu
Rósmarý segir að þó svo reksturinn gangi þokkalega komi sú spurning reglulega upp hvort gerlegt sé að halda honum áfram. Sjálf skildi hún fyrir fimm árum og verður því að horfa í hverja krónu þar sem hún er orðin eina fyrirvinna heimilisins.

„Þessi spurning kemur líklega upp árlega hjá okkur stöllum, þegar við hugsum: Hvað erum við eiginlega að spá? Segja má að við séum í sjálfboðavinnu meira og minna allan mánuðinn. Við höfum sáralítið út úr þessu, það eru ekki margir þúsundkallarnir eftir þegar búið er að borga föstu greiðslur heimilisins um hver mánaðamót.

En mér finnst gott að vera hér á Stöðvarfirði og hér vil ég búa. Mér finnst gaman í vinnunni, ég vinn með skemmtilegu fólki og lít í raun á þennan rekstur sem mína samfélagslegu skyldu, við erum mikilvægur hlekkur í brothættu samfélagi. Það vilja allir hafa búð en enginn reka hana. Við Ásta erum tilbúnar í það og höldum áfram meðan við náum að lifa af þessu. Meðan ég sjálf get lagt örlítið til hliðar svo ég komist í frí á haustin eftir sumartörnina, þá er ég bara sátt. Það er svosem ekki mikið meira en það sem ég leyfi mér, ég lifi ofsalega sparlega,“ segir Rósmarý.


Brekkan fastur punktur í tilveru margra
Brekkan hefur frá upphafi verið samkomustaður íbúa. „Við tölum gjarnan um „kaffifólkið“ okkar, en hingað koma fastakúnnar daglega til þess að fá sér kaffi og spjalla um daginn og veginn. Við finnum fyrir miklu þakklæti frá íbúum, bæði fyrir að þurfa ekki að keyra 25 kílómetra eftir helstu nauðsynjum og einnig er viðkoma í Brekkunni fastur punktur í tilveru marga.“

Viðtalið í heild sinni má lesa í síðasta tölublaði Austurgluggans. 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.