Hljómaði spennandi að gefa út blað

Nýtt tölublað af skólablaði Grunnskóla Eskifjarðar, Skólabununni, kemur út á næstu dögum. Nemendur í valáfanga standa að baki útgáfunni sem inniheldur tíðindi og viðtöl úr bæjarlífinu. Þeir eru stoltir af útgáfunni.

„Okkur líst mjög vel á blaðið. Við erum stolt og ánægð með að hafa gert þetta,“ segir Anton Berg Sævarsson, nemandi í níunda bekk skólans.

Anton er einn 16 nemenda sem í haust hafa verið í valáfanga um gerð blaðsins undir handleiðslu Guðmanns Þorvaldssonar kennara. Nú eru 25 ár síðan skólablaðið var fyrst gefið út en þetta er í fyrsta sinn sem það er unnið í sérstökum valáfanga.

Í blaðinu er að finna fróðleiksmola um Eskifjörð og viðtöl við áhugaverða bæjarbúa sem nemendurnir hafa unnið. Nafnið er dregið af litlum læk sem fellur skammt frá skólanum.

Heildarútlit blaðsins er nokkuð áhugavert en allar myndskreytingar í það eru handteiknaðar. María Nicole Łęcka var eining í áfanganum og hafði titilinn grafískur hönnuður við vinnuna.

„Ég valdi áfangann því mér fannst hljóma spennandi að gefa út blað. Við höfum ekki gert það í nokkrum tíma og það hefur gengið mjög vel,“ segir hún.

Anton var hins vegar titilinn ritstjóri sem að hans sögn fólst í að fylgjast með hvort ekki væru allir að vinna og hjálpa til þegar þess þurfti.

„Við erum búin að læra hvernig maður gerir blað, tekur viðtöl og setur upp. Við vildum hafa útlitið handteiknað því okkur fannst það frumlegra og þannig leit blaðið út eins og við hefðum gert það en ekki einhver annar.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.