Hljóðritaði plötuna í neðanjarðarbyrgi

„Það er virkilega gott að vinna sig út úr erfiðleikum með tónlistinni, að koma öllum tilfinningunum út gegnum textana,“ segir Stöðfirski tónlistarmaðurinn Hilmar Garðarsson, en hann gaf út sólóplötuna White Lotus.


Hilmar hefur búið í Finnlandi síðastliðin sjö ár þar sem hann starfar sem kokkur og tónlistarmaður og „fílar það alveg í tætlur“. „Ég var nú bara á ferðalagi og kynntist stelpu. Sambandið slitnaði en mig hafði alltaf langað að búa í öðru landi, ætlaði að vera í hálft ár en er hérna enn,“ segir Hilmar, spurður að því hvers vegna Finnland hafi orðið fyrir valinu varðandi búsetu.

„Þetta hófst nú allt saman á Stöðvarfirði þar sem ég spilaði með unglingahljómsveitum. Ég gafst fljótlega upp á því, það er alltaf erfitt þegar fimm egó mætast. Ég endaði því sem trúbador og hef unnið í mínum sólóferli síðan,“ segir Hilmar en hann gaf út fyrri plötu sína, Pleased to leave you, árið 2004.

„Ég hef alltaf spilað mikið, fyrst á Íslandi og svo hérna í Finnlandi. Ég hef ekki stigið skrefið að gera þetta að minni 100% atvinnu en ég hef alltaf mikla þörf fyrir að spila og semja. Tónlistin mín telst frekar dimm og þessi plata fjallar um sambandsslit. Platan var bara tekin upp með gítar og söng en ég fór með félaga mínum sem á góðar upptökugræjur, í neðanjarðarbyrgi sem lokað var með þykkum málmdyrum og engin umhverfishljóð náðu inn. Þetta var alveg geggjað – breiköpptónlist í þunglyndi í neðanjarðarbyrgi, það hefði ekki getað passað betur!“

„Alltaf gaman að spila með gamla“
Hilmar á ekki langt að sækja tónlistargáfuna en hann er sonur tónlistarmannsins Garðars Harðar á Stöðvarfirði. „Ætli þetta sé ekki í genunum að einhverju leyti. Það voru rosaleg forréttindi að fá að alast upp á Stöðvarfirði og stíga sín fyrstu skref í tónlist þar en þar hefur alltaf verið mikið músíklíf. Það er einmitt eitt lag á plötunni sem heitir Going Home en það fjallar um heimþrá. Ræturnar fylgja manni alltaf og ég sakna Stöðvarfjarðar alltaf af og til.“

Hilmar segir þá feðga oft taka í gítarinn þegar þeir hittast. „Við héldum saman tónleika í Sköpunarmiðstöðinni á Stöðvarfirði fyrir nokkrum árum en það er alltaf gaman að spila með gamla, hann er helvíti fær – en alls ekki segja honum að ég hafi sagt þetta,“ segir Hilmar og hlær.

Semur ekki um góðu hlutina
Hilmar segist vera með nýtt efni í bígerð. „Já, núna loksins eftir að ég hreinsaði til og gerði þessa plötu hafa verið að koma til mín bæði lög og textar. Ég á mjög dökkt efni sem ég hef ekki klárað en er að vinna í um þessar mundir. Yfirleitt koma lögin til mín fyrst en alls ekki þegar ég er að reyna að semja, þá gerist lítið. Ég er allt of latur að skrifa niður textana mína, það er ekki fyrr en eitthvað erfitt gerist að ég fanga þá. Ég get ekki samið um góðu hlutina, það verður að vera eitthvað slæmt sem hefur áhrif á mig.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.