Hitti þrjá ferðalanga í búðinni og bauð þeim heim í þorramat

„Maðurinn minn skildi ekki hvað var í gangi þegar hann kom heim, en hann er svo vanur allskonar rugli frá mér þannig að hann bara kom og spjallaði við þær,” segir Ingunn Bylgja Einarsdóttir á Egilsstöðum, en hún hitti þrjá stúlkur frá Kanada í verslun á Egilsstöðum í vikunni og endaði með því að bjóða þeim heim til sín og leyfa þeim að smakka þorramat.



„Ég fór að versla en áttaði mig á því á heimleiðinni að ég hefði gleymt ákveðnum hlutum þannig ég kom við í versluninni Vaski. Þegar ég kom þar að kassanum rakst ég utan í stelpu sem bað mig afsökunar, en þarna voru á ferð þrjá vinkonur frá Kanada. Þær voru að spyrja afgreiðslustúlkuna um hitt og þetta og ég dróst inn í þær samræður,” segir Ingunn Bylgja. 

„Þær vildu svo endilega spyrja mig fleiri spurninga, meðal annars um innflutning og útflutning sem og gjaldeyrismál Íslendinga. Ég útskýrði fyrir þeim ferðamannastrauminn, fiskiðnaðinn og fleira. Þær vildu líka vita allt um heita vatnið og hvernig við myndum hita húsin okkar. Einnig hvað þær gætu gert skemmtilegt í hágrenninu. Þær töluðu einnig um að þær langaði að smakka íslenskan mat og ég fór því að segja þeim frá þorranum og hefðunum í tengslum við hann. Þetta endaði svo með því að ég bauð þeim að koma með mér í Nettó þar sem við gætum fengið hákarl,” segir Ingunn sem keypti einnig hákarl og ákvað að bjóða þeim með sér heim til þess að snæða herlegheitin. Því fór það svo að þær Giuliana, Carolyn og Hannah settust í eldhúskrókinn hennar Ingunnar Bylgju sem hlóð borðið íslenskum krásum.

Súrmatur það besta sem Ingunn Bylgja veit
„Þær voru geggjað til í þetta og voru ægilega þakklátar. Ég gaf þeim einnig bita af öllu úr súrfötunni sem ég á alltaf til á þorranum og þær voru ekkert smá duglegar að smakka á þessu öllu. Þeim líkaði maturinn mis vel, þótti hákarlinn í lagi en harðfiskurinn ekki góður. 

Ég sjálf og Úlfur, tíu ára sonur minn, erum alveg veik í súrmat. Hann kom einmitt heim þegar við vorum að byrja að smakka, skar sér stóran bita af pungum, tróð upp í sig og fór. Þær vissu hvað þetta var og spurðu undrandi hvort barninu þætti þetta gott. 

Þær voru heima hjá mér í rúman klukkutíma og fóru þaðan upp að Hengifossi, en ég sagði þeim frá honum og alla jarðsöguna í kringum hann. Við kvöddumst svo bara, allir urðu vinir á Facebook og ég á inni heimboð til Ontario ía Kanada,” segir Ingunn og hlær.

Hefur sjálf unnið við ferðaþjónustu
Sjálf hefur Ingunn starfað í ferðaþjónustu og því ekki ókunn því að leiðbeina útlendingum um svæðið. „Þetta var bara geggjað gaman og þær himinlifandi að hitta manneskju sem var til í að tala við þær og hvað þá bjóða þeim heim í íslenskan mat. Upplýsingaveita til ferðafólks var auðvitað stór hluti af mínu starfi í ferðaþjónustunni. Ég þekki því svæðið vel og á auðvelt með að miðla þeim fróðleik áfram,” segir Ingunn sem vann eitt sumar í upplýsingamiðstöð, þrjú sumur á hóteli á Borgarfirði eystri og eitt sumar sem landvörður i Snæfellsstofu.

 

Ingunn Bylgja Einarsdóttir

Ingunn Bylgja Einarsdóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.