Herðubreið fær andlitslyftingu - Myndir

Félagsheimilið Herðubreið á Seyðisfirði hefur fengið mikla andlitslyftingu á undanförnum mánuðum og frekari framkvæmdir eru í bígerð. Tvær ungar konur standa að baki endurbótunum með það markmið að opna húsið fyrir bæjarbúum.

Þær Sesselja Hlín Jónasardóttir og Celia Harrison hafa síðan í mars 2017 unnið að endurbótum á félagsheimilinu. Búið er að endurgera baðherbergi hússins, taka anddyrið í gegn og koma þar meðal annars upp lítilli kaffiafgreiðslu ásamt verkefnarými.

Markverðustu breytingarnar eru hins vegar að búið er að koma gleri í gluggana í samkomusalnum. „Við vildum fara aftur í upprunalega hönnun hússins og fá náttúrulega birtu inn í salinn. Hún hefur ekki verið þar í að minnsta kosti 30 ár,“ útskýrir Celia sem titluð er listrænn stjórnandi Herðubreiðar í nýjasta tölublaði Austurgluggans.

Húsið gert aðgengilegra

Celia er fædd á Nýja-Sjálandi og menntuð í innanhússhönnun og samfélagsþróun. Sá bakgrunnur nýtist henni vel í Herðubreið.  „Við höfum viljað gera húsið aðgengilegra og finna leið til að fólk læri að meta það upp á nýtt. Við viljum að allir finni sitt rými og upplifi sig velkomna. Í náminu hef ég meðal annars lært um hvernig samfélag þróast eftir því sem umhverfi þess breytist,“ segir hún.

Margvíslegar breytingar eru þegar búnar og fleiri eru framundan. Samkomusalurinn hefur verið nýttur sem matsalur fyrir grunnskólann. Eldhúsið var áður á bak við sviðið í bíósalnum en hefur nú verið flutt í rými sem opnast beint inn í samkomusalinn. Celia segir áform um að eldhúsið verði aðgengilegt bæjarbúum sem aðgang þurfi að hafa að vottuðu eldhúsi, mögulega fyrir minni rekstur.

Hvert herbergi fær hlutverk

Rýminu á bak við sviðið verður breytt í geymslur fyrir tæki og annað sem tengist leikstarfsemi. Þær eru vissulega til staðar í dag en dreifast á þrjár hæðir. Við það opnast rými fyrir félagsstarfsemi og listsköpun. „Ef við losum um pláss verður til rými fyrir nýja og fjölbreyttari starfsemi. Hvert herbergi fær hlutverk. Við viljum að öllum líði eins og þeir geti gert eitthvað hér.“

Þá er í gangi söfnun fyrir tækjum til að nota í bíósalnum. „Við erum að reyna að koma bíóinu aftur í gang.“ Þær hafa bæði fengið stuðning bæjarins í framkvæmdirnar en snemma á árinu kom líka stór styrkur úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.

Celia og Sesselja standa einnig að baki hátíðinni List í ljósi sem meðal annars hefur nýtt rými í Herðubreið. „Það eru tækifæri til að vera með eitthvað í gangi í húsinu í hverjum mánuði,“ segir Celia.

Bæjarbúar ánægðir með endurbæturnar

Celia segir að endurbæturnar hafi almennt fengið góðar viðtökur bæjarbúa. „Viðbrögðin hafa verið mjög jákvæð. Mér hefur þótt mest gaman að sjá fólk sem hefur búið hér lengi og þekkir húsið vel koma inn í það í fyrsta sinn eftir endurbætur og hversu jákvætt það er.

Einhverjir höfðu áhyggjur af því að þessar ungu stúlkur vissu ekkert hvað þær væru að gera en ég held að annað hafi komið í ljós miðað við hversu marga viðburði er búið að halda hér og hversu margt fólk hefur komið. Það er alltaf einhver að reka inn nefið til að sjá hvað er að gerast og það sýnir að mínu viti að við erum á réttri leið.“

Myndir úr Herðubreið: Nicolas Grabar

DSC03679 Web
DSC03685 Web
DSC03742 Colder Web
DSC03744 Web
DSC03751 Web
DSC03754 Web
DSC03756 Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.