Helgin: Vor í lofti í menningu og veðri

Veðurstofa Íslands spáir smjörþef af sumrinu á Austurlandi um helgina. Ýmsir viðburðir verða í boði, utanhúss og innan.

Veðurstofan spáir 10-17 stiga hita og sól fram til mánudags yfir daginn, þar sem hlýjast verður inn til landsins.

Því er ekki úr vegi að hefja helgina á bæjargöngu á Stöðvarfirði klukkan 11 í fyrramálið. Mæting er við Söxu kaffihús og leiðir Björgvin Valur Guðmundsson gönguna sem Ferðafélag Fjarðamanna stendur fyrir.

Myndlistasýningin Sjónlist opnar í Þórsmörk í Neskaupstað klukkan 13:00. Þar verða sýnd verk sex nemenda úr listaáfanga við Verkmenntaskóla Austurlands.

Klukkan 14:00 verður Lúðrasveit Fljótsdalshéraðs með vortónleika sína við Tehúsið á Egilsstöðum. Verður þar blandað saman dægurflugum við hefðbundna lúðrasveitartónlist.

Á sama tíma verður vordagur á Borgarfirði sem hefst við Naddakross í Njarðvíkurskriðum. Á dagskránni verður meðal annars fjöruferð, fjárhúsaheimsókn og innlit í Lindarbakka.

Eftir langa daga í sólinni er ágætt að leita inn í svalann. Harmonikkutvíeykið Storm Duo verður með tónleika í Herðubreið á Seyðisfirði á sunnudag kl. 18:00. Dúóið skipa þær Ásta Soffía Þorgeirsdóttir og Kristina Farstad Bjørdal.

Í Vöffluhúsinu á Vopnafirði verður ítalski ostagerðarmaðurinn Savino með kynningarfund um ostagerð klukkan 17:00. Þar fer hann yfir grunnatriðin á bakvið ýmsar ostategundir auk þess að sýna áhöld og efnivið.

Klukkan 20:00 verður heimildamyndin „I am Trying to Break Your Heart“ sýnd í Valhöll á Eskifirði á vegum Menningarstofu Fjarðabyggðar og félagsskaparins Músík og myndir. Myndin fjallar um bandarísku hljómsveitina Wilco og erfiðleika hennar við upptökur og útgáfu plötunnar „Yankee Hotel Foxtrot“ sem hún gaf út fyrir 20 árum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.