Helgin; „Um 1000 manns skrifuðu sig í gestabókina í fyrra“

„Við erum að fara að halda árlegann Tæknidag fjölskyldunnar í 5. sinn núna og hefur þessi dagur verið ótrúlega vel sóttur síðastliðin ár. Markmiðið með honum er að vekja athygli barna og ungmenna á því að verkmenntir, tækni og vísindi sé áhugaverður vettvangur fyrir framtíðina.


Síðastliðin ár hefur þetta verið gríðarlega vel sótt, en í fyrra sprakk þetta þegar um 1000 manns skrifuðu sig í gestabókina hjá okkur. Fólk er að koma til okkar frá stóru svæði, allt frá Vopnafirði og til Djúpavogs, en í ár hef ég fengið fregnir af því að fólk alla leið frá Akureyri, sem tengist austur, ætlar að nota þessa helgi og koma,“ segir Lilja Guðný Jóhannesdóttir, verkefnastjóri hjá Verkmenntaskóla Austurlands.

Tæknidagur fjölskyldunnar verður haldinn í Verkmenntaskóla Austurlands laugardaginn 7. október frá klukkan 12:00 – 16:00
Nánari upplýsingar má finna hér.


Agent Fresco í Valaskjálf

Hljómsveitin Agent Fresco heldur tónleika í Valaskjálf Egilsstöðum. Þetta er í fyrsta skipti sem hljómsveitin leikur í Valaskjálf og lofa strákarnir að sýna allar sínar bestu hliðar.
Tónleikarnir eru laugardaginn 7. Október og hefjast kl. 22:00

Nánari upplýsingar má nálgast hér 

Einkasýning Margrétar H. Blöndal.

Margrét H. Blöndal mun opna einkasýningu sína í sýningarsal Skaftfell, Myndlistarmiðstöð Austurlands, laugardaginn 7. Október. Sýningin ber heitið pollur – spegill.
Til sýnis verða sex ný verk, en Margrét safnaði efnivið sínum um Seyðisfjörð, í heimahúsum með leyfi, í geymslum og skemmum.
Sýningin pollur – spegill mun standa til 26. Nóvember og er hún opin á sama tíma og Bistroið í Skaftfelli.

Haustroði á Seyðisfirði.

Haustinu verður fagnað á Seyðisfirði er Austfirðingum verður öllum boðið yfir Fjarðarheiðina og þeim kynnt það sem er í boði á Seyðsfirði. Markaðstorg í Herðubreið, opnun í Skaftfelli, krakkabíó, íþróttaskóli, dótadagur í Sundhöllinni, sultukeppni og margt fleira.
Dagskráin byrjar 10:30 og stendur fram eftir degi.

Nánari upplýsingar má nálgast hér 

Sveiflukvartettinn með tónleika í Djúpavogskirkju

Djúpavogshreppur fær góða gesti til sín á laugardagskvöldið, en þá leikur Sveiflukvartettinn í Djúpavogskirkju kl. 20:00. Efnisskrá tónleikanna er til þess fallin að draga athygli að því hvað klassísk tónlist og jazz eiga margt sameiginlegt.
Sveiflukvartettinn skipa Guðrún Sigríður Birgisdóttir (flauta) Gunnar Hrafnsson (kontrabassi), Óskar Kjartansson (trommur) og Snorri Sigfús Birgisson (píanó).
Tónleikarnir eru rúmur klukkutími og er ókeypis fyrir nemendur Djúpavogsskóla.


Nánari upplýsingar má finna hér 


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar