Orkumálinn 2024

Helgin: „Tónlistarsagan í ME er mögnuð“

Haldið verður uppá 40 ára afmæli Menntaskólans á Egilsstöðum í kvöld með pompi og prakt. Elín Rán Björnsdóttir er formaður afmælisnefndar en hún segir að gera eigi menningarsögunni í skólanum hærra undir höfði í kvöld en gert hefur verið í tengslum við fyrri afmæli.

Helgin: Tónlistarsagan í ME er mögnuðTilvalið þótti að halda afmælishátíðina núna um helgina þar sem brautskráning fer fram á morgun „40 ára afmælið er í rauninni ekki fyrr en í október en okkur langaði ofsalega mikið til að halda uppá það og ekki endilega bara með köku og ræðum. Þannig að við ákváðum að slá til afmælishátíðar núna daginn fyrir útskrift,“ segir Elín Rán.

Afmælið verður mikil tónlistarveisla og segir Elín Rán hafa gengið vel að fá tónlistarfólkið til að taka þátt. „Uppleggið var að fá eina hljómsveit frá hverjum áratug til þess að koma en það hefur skolast aðeins til, þetta er sirka þannig en ekki alveg. Það eru tónlistarmenn frá öllum tímabilum og allir svo elskulegir að koma og taka þátt í þessu án þess að taka borgun fyrir.“

Farið hefur verið yfir mikið myndefni í undirbúningi hátíðarinnar og Elín segist í raun hafa áttað sig á því hversu mögnuð tónlistarsaga skólans er við yfirferðina. „Við erum búin að vera að færa þetta á stafrænt form og sýnum svona brot úr sögu skólans í klippum. Þannig að við erum að gera þessu svona menningarlega hærra undir höfði en við höfum kannski gert áður á afmælum. Það er í rauninni mögunuð tónlistarsaga í skólanum. Þegar ég var að fara í gegnum myndböndin frá Barkanum til dæmis sá ég að það eru alveg ótrúlega margir af krökkunum sem voru að taka þátt á tímabilinu 1997- 2002 eru atvinnusöngvarar eða tónlistarmenn í dag.“

Afmælishátíðin fer fram í Valaskjálf í kvöld, það er frítt inn og allir velkomnir. „Það verður geðveikt stuð. Við pöntuðum veitingar fyrir 250 mans en vitum auðvitað ekkert hvað við eigum von á mörgum,“ segir Elín Rán að lokum.


Háskólalest, karlakór og úrbætur

Fleira spennandi er á döfinni á Austurlandi um helgina. Háskólalest Háskóla Íslands heimsækir Djúpavog á laugardaginn. Dagskrá verður á 11-15 á Hótel Framtíð. Þar verður hægt að gera óvæntar uppgötvanir og frábærar tilraunir og stunda alls kyns mælingar og pælingar með áhöfn lestarinnar.

Karlakórinn Fóstbræður heldur tónleika undir titlinum Brennið þið vitar í félagsheimilinu Miklagarði á Vopnafirði föstudaginn í kvöld klukkan 19.30. Flutt verða íslensk og erlend verk fyrir karlakóra.

Svokallaðar úrbótagöngur verða gengnar á Fljótsdalshéraði á sunnudaginn klukkan 12. Þátttakendur geta valið um að mæta við: Olís í Fellabæ og ganga um Fellabæ., Vonarland og ganga um m.a. Vellina og Traðirnar, Vonarland og ganga m.a. um Tjarnargarðinn og gamla bæinn, Leikskólann Skógarland og ganga m.a. um Vilhjálmsvöll og Selbrekku, Tjaldsvæðið á Egilsstöðum og ganga m.a. um suðursvæðið og miðbæinn. Hlutverk þátttakenda er ganga saman um þessi svæði og benda á það sem þeim finnst að þurfi að laga til að breyta ásýnd viðkomandi svæðis og bæta upplifun. Úrbótagöngurnar eru liður í áfangastaðaáætlun Austurlands og er það ungmennaráð Fljótsdalshéraðs sem mun stýra úrbótagöngunni.

Hljómsveitin Shape er meðal þeirra sem fram kemur um helgina.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.