Orkumálinn 2024

Helgin: Tónleikar, bókaútgáfa, leikrit og íþróttir

Viðburðir helgarinnar bera það með sér að lífið sé að færast í samt horf á ný eftir Covid-faraldurinn og jafnvel sé uppsöfnuð þörf.

Textíllistamaðurinn og brúðuleikarinn, Carola Mazzoti frá Paragvæ mun bjóða uppá námskeið í útsaum frá rómönsku-Ameríku á Bókasafni Seyðisfjarðar klukkan 15:00.

Norðfirska hljómsveitin Coney Island Babies heldur tónleika í Valhöll á Eskifirði í kvöld klukkan 20:00. Sveitin ætlar að flytja úrval laga af plötum sínum tveimur ásamt nokkrum lögum úr öðrum áttum. Sérstakir gestir á tónleikunum verður pönksveitin DDT-skordýraeitur.

E.U.E.R.P.I. er listamannsnafn Búlgarans Mirian Kolev. Hann notast einkum við gítar og umhverfishljóð til að búa til tóna- og tíðnisvið. Kolev hefur flutt tónlist sína fyrir áhorfendur víða um Evrópu og Asíu og nú er komið að Austurlandi. Hann verður í Tehúsinu á Egilsstöðum klukkan 19:00 á laugardag og í Herðubreið, Seyðisfirði á sunnudag klukkan 19:30.

Dúndurfréttir er meðal þekktari hljómsveita landsins fyrir útgáfur sínar af lögum hljómsveita eins og Pink Floyd, Led Zeppelin, Deep Purple, Uriah Heep og Queen. Sveitin mætir í Egilsbúð í Neskaupstað á laugardag og flytur úrval laga. Tónleikarnir eru hluti af Tónaflugi í Neskaupstað og hefjast klukkan 21:00.

Sama kvöld verður einleikurinn Hellisbúinn sýndur í Valaskjálf á Egilsstöðum. Um er að ræða 30 ára afmælissýningu og er það Jóel Sæmundsson sem fer með hlutverk Hellisbúans að þessu sinni. Sýningin hefur verið uppfærð og endurskrifuð í takt við tímann. Sýningin hefst klukkan 20:00.

Rithöfundurinn Sveinn Snorri Sveinsson kynnir nýjustu bók sína, Ferðalag til Filippseyja, á Skriðuklaustri á sunnudag. Hann les upp úr verkinu og sýnir myndir sem tengjast skáldævisögunni. Þetta er önnur bókin í röð hans þar sem sambandi sögumanns og unnustu frá Filippseyjum er fylgt eftir. Að þessu sinni liggur leið til Manilla og Dubaí. Sveinn Snorri stígur fram klukkan 15:00 á sunnudag.

Karlalið Þróttar í blaki tekur á móti Þrótti Vogum. Liðin leika tvisvar, á laugardag klukkan 15:00 og aftur á sunnudag klukkan 13:00.

Í fyrstu deild karla í körfuknattleik á Höttur leik gegn Hamri í Hveragerði klukkan 19:15 í kvöld.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.