Helgin: Skógardagurinn snýr aftur

Skógardagurinn mikli snýr aftur eftir tveggja ára hlé vegna Covid-faraldursins um. Fjölbreytt menningardagskrá er um allan fjórðung næstu daga.

Skógardagurinn hefst í kvöld með upphitun, mat og söng í hópi skógarfólks, en aðaldagskráin verður í Mörkinni á Hallormsstað og hefst á hádegi á morgun. Boðið verður upp á heilgrillað lamb og naut, tónlist þrautir auk úrslita Íslandsmótsins í skógarhöggi.

Innsævi komin í gang

Gítar- og söngtríóið Túnfífill, sem skipað er Svani Vilbergssyni gítarleikara frá Stöðvarfirði, Erlu Dóru Vogler mezzósópran frá Egilsstöðum og Maríu Konráðsdóttur sópran, eru á ferð um Austfirði og flytja söngperlur frá Íslandi, Spáni, Frakklandi, Rússlandi, Þýskalandi og Englandi.

Þau koma fram í Sköpunarmiðstöðinni á Stöðvarfirði klukkan 20:00 í kvöld og í Safnahúsinu í Neskaupstað klukkan 14:00 á morgun. Tónleikar þeirra eru hluti af menningarhátíðinni Innsævi sem Menningarmiðstöð Fjarðabyggðar skipuleggur og sett var í gær.

Fleira er í gangi á þeirri hátíð. Búlgarski hljóðlistamaðurinn Mirian Kolev verður með viðburð sem hann kallast Planta / Maður – Dúó í Þórsmörk í Neskaupstað klukkan 16:00 á morgun. Verk hans er tvískipt, annars vegar tónleikar, hins vegar hljóðinnsetning þar sem hann rannsakar hljóðbylgjur sem mismunandi plöntur gefa frá sér og umbreytir þeim í hljóð.

Eitt heitasta nafni í íslensku rappi í dag, Birnir, kemur fram í Egilsbúð annað kvöld klukkan 21:00. DJ Steinar Fjeldsted, betur þekktur sem Steini úr Quarashi, hitar upp en hann hefur verið með tónlistarsmiðju á vegum Menningarmiðstöðvarinnar í vikunni. Tónleikarnir eru hluti af röðinni Tónaflugi.

Á sunnudagskvöld verður Bandaríkjamaðurinn Marc Alexander, sem búið hefur á Fáskrúðsfirði, með sýningu á Beljanda á Breiðdalsvík. Í gegnum klippimyndaverk túlkar hann ást sína á Íslandi er baráttu sína við að læra tungumálið. Þrátt fyrir að hafa sótt nokkur tungumálanámskeið virðast bókstafirnir aldrei raða sér upp eins og Marc vildi enda kallar hann sýninguna „Ég tala pínu íslensku.“

Það verður líka tónlist á Héraði en tónleikaröðin „Tónlistarstundir“ heldur áfram. Á sunnudagskvöld kemur fram Islandtief eða „Lægð yfir Íslandi“ fram í Vallaneskirkju. Islandtief er dúó, skipað söngkonunni Hlín Pétursdóttur Behrens frá Egilsstöðum og harmonikkuleikaranum Hrólfi Vagnssyni. Þau flytja íslensk kvæði í bland við sönglög frá fleiri löndum.

Í hádeginu á sunnudag opnar ný sýning í Glettu í Hafnarhúsinu á Borgarfirði sem kallast „Tómið uppmálað.“ Sýningin samanstendur af olíumálverkum, blekteikningum og veggteppum innblásnum af hrifningu listafólksins, Agötu Mickiewicz og Styrmis Arnar Guðmundssonar á kristöllum.

Sólstöðugöngur og flot

Lengsti dagur ársins var í vikunni og Jónsmessunótt er nýliðin. Viðburðir helgarinnar markast líka að því. Gönguvika í Fjarðabyggð líður undir lok en þar á dagskránni eru hvern dag fjölbreyttar göngur og síðan kvöldvökur.

Ferðafélag Fljótsdalshéraðs fer í árlega sólstöðugöngu sína í kvöld. Gengið verður á Sönghofsfjall við Vatnsskarð í fylgd með Sigríði Láru Sigurjónsdóttur. Lagt er af stað frá húsnæði Ferðafélagsins á Egilsstöðum klukkan níu í kvöld.

Í vikunni var líka alþjóðlegi baðdagurinn og í tilefni þessa alls verður sumarnæturopnun í Vök Baths. Opið verður frá klukkan tíu í fyrramálið til tíu á sunnudagskvöld þannig gestir geti upplifað bjarta, íslenska sumarnótt. Þeir sem eiga flothettur eru hvattir til að taka þær með sér upplifa þyngdarleysi í fljótandi laugunum. Einnig er hægt að fá þær leigðar á staðnum.

Í knattspyrnunni verður tvíhöfði á Héraði. Höttur/Huginn tekur á móti Völsungi í annarri deild karla nú klukkan 18:00 en Spyrnir á móti Samherjum á Fellavelli klukkan 20:00 í fjórðu deildinni. KFA spilar í annarri deildinni á morgun við Þrótt í Reykjavík en Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir gegn Víkingum syðra í Lengjudeild kvenna á sunnudag. 

Frá skógarhöggskeppnini á Skógardeginum. Mynd: Ágúst Valgarð Ólafsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.