Orkumálinn 2024

Helgin: Reyna að tengja saman innfædda og aðkomna Héraðsbúa

Fjölmenningarhátíð verður haldið í menningarmiðstöðinni Sláturhúsinu á Egilsstöðum á mánudag, annan í hvítasunnu. Útgáfutónleikar, frisbígolfkennsla, nágrannaslagur í fótboltanum og listamannaspjall er meðal þess helsta um helgina.

„Hvatinn er að reyna að finna leið til að tengja saman Héraðsbúa, innfædda og aðkomna,“ segir Kristín Amalía Atladóttir, sem stýrir Sláturhúsinu.

Hátíðin stendur allan daginn og á henni kennir ýmissa grasa. Boðið verður upp á tónlist, fjöldadans, kvikmyndasýningar frá ýmsum löndum yfir daginn, kynningar félagasamtaka og fyrirtækja af Héraði og matarkynningar um kvöldið. Þá verður aðstaða fyrir börn til að leika sér meðan foreldrarnir skoða sig um, svo dæmi séu tekin.

„Ég þekki ekki stöðuna hér en mér finnst ég ekki sjá mikinn samgang milli innfæddra og aðfluttra. Hugmyndin okkar snýst ekki bara um hátíðina sjálfa heldur undirbúninginn og framhaldið.“

Ungmennafélagið Þristur stendur fyrir frisbígolfnámskeiði í Tjarnargarðinum á Egilsstöðum um helgina en kennari er landsliðsmaðurinn Mikael Máni Freysson. Á laugardag er barna- og fjölskyldunámskeið frá klukkan tíu en á sunnudag fullorðinsnámskeið frá 13-16. Að því loknu verður mót þar sem skipt er í flokka eftir aldri.

Tónlistamaðurinn Prins Póló hefur verið á ferð um landið til að fylgja eftir nýrri plötu sinni, Þriðja kryddið. Á sunnudag er komið að tónleikum á heimavelli í Havarí í Berufirði og hefast þeir klukkan 20:00.

Í dag er listamannaspjall á vegum Skaftfells í fjölnotarými á Öldugötu. Fimm listamenn, Elena Mazzi, Hannimari Jokinen, Joe Sam-Essandoh, Jemila MacEwan og Pierre Tremblay, dveljast í gestavinnustofum Skaftfells í mánuðinum og þau kynna verk sín og vinnuaðferðir milli 16 og 18 í dag.

Í kvöld er nágrannaslagur í annarri deild karla í knattspyrnu þegar Höttur tekur á móti Fjarðabyggð á Fellavelli klukkan 19:15. Annar nágrannaslagur var í deildinni í gærkvöldi þar sem Leiknir vann Huginn 2-0. Á morgun heimsækir Einherji KFG í þriðju deild karla.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.