Helgin: „Mikilvægast er að ég og aðrir skemmti sér vel“

Á Borgarfirði eystra hafa þeir félagar hjá Já Sæll í Fjarðarborg opnað barinn og veitingasöluna fyrir sumarið. Óttar Már Kárason vert segir sumarið fara vel af stað.

Það hefur verið hefð hjá vertunum í Fjarðaborg að halda óhefðbundnar þemahátíðir á hverju sumri og stendur fyrsta hátíðin fyrir dyrum í kvöld, Hátíð Hringadróttins. Dagskrá hátíðarinnar verður helguð sagnaheimi Hringadróttinssögu J.R.R. Tolkien, haldin verða erindi, Föruneyti hringsins sýnd í lengdri útgáfu á breiðtjaldi og tilboð á mat og drykk. „Þetta verður brjálað stuð, við erum búnir að ráða til okkar miðalda- og íslenskufræðing sem ætlar að leggjast yfir sagnfræðina á bak við söguna og ég sjálfur persónulega mun halda tölu um siðferðilegar og heimspekilegar vangaveltur tengdar sagnaheimi Tolkiens.“

Óttar Már segist ekki búast við mjög mörgum gestum á hátíðina. „Nei ég geri það ekki. Ég býst bara við því að það verði góðmennt. Mikilvægast er að ég og aðrir skemmti sér vel.“

 

Göngusumarið hefst
Fyrstu auglýstu gönguferðir Ferðafélags Fljótsdalshéraðs og Ferðafélags Fjarðamanna fara fram um helgina. Um helgina stendur Ferðafélag Fljótsdalshéraðs fyrir fjölskylduferð í Húsey. Farið verður af stað klukkan 10 á sunnudaginn, ekið út í Húsey og gengið um sléttuna utan við Húseyjarbæina. Ferðafélag Fjarðamanna stendur fyrir gönguferð á sunnudaginn líka en gengið verður um Geldingaskarð í Seldal frá Oddskarði. Lagt verður af stað  klukkan 10 frá Seldalsbænum.

Hvítasunnu ber upp um helgina og verður víða í fjórðungnum messað eins og gera má ráð fyrir. Við Kolfreyjustaðarkirkju verður afhjúpaður minningarsteinn um prestshjónin séra Þorleif Kjartan Kristmundsson og frú Þórhildi Gísladóttur eftir messu á hvítasunnudag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.