Helgin: Lægð yfir Íslandi sendir póstkort frá París

Dúóið Islandtief, eða Lægð yfir Íslandi, heldur tónleika á Tehúsinu á Egilsstöðum á sunnudagskvöld. Ýmsir list- og menningarviðburðir eru á dagskrá helgarinnar.

Það eru þau söngkonan Hlín Pétursdóttir Behrens frá Egilsstöðum og harmonikkuleikarinn Hrólfur Vagnsson sem mynda dúóið. Nafn þess má rekja til tónleikaferðar í Þýskalandi og þótti það vænlegt til árangurs þar í landi.

Þau fara víða um heim í tónlistarsviðinu á tónleikum sem hefjast klukkan 20:30 á sunnudagskvöld. Þótt lægðin liggi að þessu sinni yfir París blása vindar hennar líka um Ísland og Suður-Ameríku.

Ted Ganger

Annað kvöld á sama tíma í Tehúsinu kemur fram Ted Ganger, sem flytur eigin lög við píanóundirleik. Tónsmíðar hans eru í léttari kantinum, aðgengileg en áhugaverð tónlist og í textum hans ber oft á gamansömum tón. Í tónlistinni má heyra áhrif úr djasstónlist, söngleikjatónlist og kabarett, en einnig efnistök sem eiga skylt við sígilda tónlist tuttugustu aldarinnar og jafnvel samtímatónlist úr ýmsum áttum.

Ted Ganger á að baki fjölbreyttan feril, hefur meðal annars stjórnað sinfóníuhljómsveitum og óperuuppfærslum, leikið einleik með hljómsveit, leitt kammertónlistarhópa, spilað með söngvurum og kennt við tónlistarháskóla. Hann hefur farið fjölda tónleikaferða um Bandaríkin og Evrópu. Aðgangur er ókeypis.

Sýningin Geiraljós opnar á Skriðuklaustri klukkan 15 í dag. Verkin á sýningunni eru eftir austurrísku listakonuna Söruh Rinderer sem dvalið hefur þar síðustu vikur. Sarah er ekki ókunnug Íslandi því hún dvaldi síðast hér árið 2017. Þar kom vitinn í Gróttu ítrekað upp í minnispunktum hennar sem orðið hefur að innblæstri fyrri 360° ljóðræna sjávarmynd.

Djúpavogsbúar hittast á Við Voginn yfir léttri spurningakeppni klukkan níu í kvöld. Spurningaflóðið byrjar klukkan níu.

Á Aski Taproom verður hent í í reggípartí annað kvöld. DJ Cansei de ser Hipster stýrir tónlistinni.

Með ástarkveðju frá besta hundi í heimi

Barnamenningarhátíðin BRAS heldur áfram. Á morgun klukkan 11:30 leiða þær Patrcicia Metola, teiknari frá Spáni og Lilai Licata, myndlistar- og kvikmyndakennari í Seyðisfjarðarskóla, vinnustofu í Herðubreið. Metola myndskreytti barnabókina „Með ástarkveðju frá Alfie McPoonst, besta hundi í heimi,“ en í henni sendir hundurinn Alfie eiganda sínum kveðju eftir andlát sitt. Bókin hefur ekki enn komið út á íslensku en Elfa Hlín Pétursdóttir íslenskaði texta hennar fyrir þetta tilefni.

Á námskeiðinu er þátttakendum er boðið að endurspegla ást – ást til gæludýrs, fjölskyldumeðlims eða jafnvel ást til vinar. Eftir að þátttakendur eru búnir að ákveða hverjum ástin beinist að, nota þeir fjölbreyttar frásagnarleiðir til að búa til einstakan bækling sem fagnar ást þeirra á viðkomandi sem aðstoðar börn við að takast á við missi og sorg í fyrsta skipti.

Alþjóðlegur forvarnardagur gegn sjálfsvígum er á morgun. Árleg minningarstund verður haldin í Egilsstaðakirkju annað kvöld klukkan 20:00. Sr. Kristín Þórunn Tómasdóttir og sr. Sigríður Rún Tryggvadóttir leiða stundina þar sem Torvald Gjerde deilir reynslu sinni. Eftir stundina er kaffi og kynning á starfi fyrir syrgjendur.

Mikilvægur leikur í fallbaráttunni

Senn líður að lokum Íslandsmótsins í knattspyrnu. KFA tekur á móti Víkingi úr Ólafsvík klukkan 15:15 í Fjarðabyggðarhöllinni á morgun en KFA þarf einn sigur í viðbót til að tryggja veru sína áfram í annarri deild karla. Höttur/Huginn heimsækir topplið Njarðvíkur.

Einherji leikur fyrri leik sinn gegn Ými í úrslitakeppni fjórðu deildar karla. Leikið er í Kórnum klukkan 14:00 á morgun en seinni leikurinn verður á Vopnafirði á miðvikudag.

Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir leikur síðasta heimaleik sinn í sumar þegar Víkingur úr Reykjavík mætir í heimsókn klukkan 12:30 á morgun. Einherji fer á Höfn og spilar gegn Sindra í lokakeppni annarrar deildar kvenna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.