Helgin: Kvæðamenn og körfubolti

Landsmót kvæðamanna, tónleikar, pólsk listahátíð og leikur um sæti í úrvalsdeild karla í körfuknattleik er meðal þess sem í boði er á Austurlandi um helgina.

Kvæðamenn hittast á Gistihúsinu á Egilsstöðum um helgina. Í kvöld eru þar tónleikar, á morgun námskeið og kvöldvaka annað kvöld.

Stemma, landsfélag kvæðamanna, var stofnað árið 2013. Aðildarfélögin eru átta, þar á meðal Félag ljóðaunnenda á Austurlandi. Landsmótið hefur verið haldið árlega frá 2013, nema það féll niður 2020. Það var síðast haldið á Egilsstöðum 2016 og er að sögn Magnúsar Stefánssonar, hjá Félagi ljóðaunnenda, enn í minnum haft. „Það er reiknað með að mótið nú verði álíka skemmtilegt – og það verður skemmtilegt.“

Norðfirski rapparinn Ztonelove heldur tónleika á Tehúsinu á Egilsstöðum í kvöld, sem hefjast klukkan 22:00. Þar flytur Ztonelove frumsamin lög.

Á sunnudag býður Rótarýhreyfingi á Íslandi til hátíðartónleika í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði. Þar spila píanóleikarinn Alexander Smári Edelstein og fiðluleikarinn Sólveig Vaka Eyþórsdóttir. Þau hafa bæði fengið styrk frá hreyfingunni til náms síns erlendis. Þá kemur einnig fram listahópurinn Austuróp.

Vor/Wiosna

Pólska listahátíðin Vor/Wiosna heldur áfram með fjölbreyttri dagskrá í Herðubreið á Seyðisfirði morgun. Hún hefst klukkan 11 með fjölskyldustund þar sem hljóðheimar verða skoðaðir með nýstárlegum hljóðfærum. Adam Switala, aðjúnkt við Háskóla Íslands og tónlistarmaður, leiðir stundina.

Milli 16-17 á morgun verða sýndar níu teiknaðar stuttmyndir í leikstjórn kvenna. Strax eftir hana verður sýningin: Stock for Future: Emotions opnuð. Stefan Kornacki sýnir þar innsetningarverk sem byggir á viðtölum sem hann hefur tekið við fólk í samfélaginu í apríl en hann hefur dvalið í listamannaíbúð á Egilsstöðum.

Síðast á dagskrá eru tónleikar klukkan 20:00 með Mammoth Ulthana, dúó pólsku avant-garde tónlistarmannanna Jacek Doroszenko og Rafal Kolacki sem flytja þar tónverk sem þeir hafa unnið sérstaklega fyrir kvöldið.

Snjókross, karfa og fótbolti

Lokaumferð Íslandsmeistaramótsins í snjókrossi verður haldin á Fjarðarheiði. Byrjað verður að keyra á hádegi á morgun.

Karlalið Hattar í körfuknattleik getur tryggt sér sæti í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð þegar liðið tekur á móti Álftanesi í þriðja leik liðanna í umspilum um sætið í kvöld. Leiknum hefur verið seinkað um klukkustund og hefst klukkan 20:15.

Knattspyrnufélag Austfjarða mætir Sindra í annarri umferð bikarkeppni karla í knattspyrnu á Höfn á morgun meðan Fjarðabyggð/Höttur tekur á móti Augnabliki í sínum síðasta leik í Lengjubikarnum.

Sárablót, málvísindi og stjórnmál

Borgfirðingar efna til sárablóts, til að vega upp á móti þorrablótunum sem fallið hafa niður síðustu tvö ár í Fjarðarborg annað kvöld. Jón Arngríms og Nefndin spila fyrir dansi eftir borðhald.

Á Breiðdalsvík hefst klukkan 13:00 á morgun málþing um arfleifð Stefáns Einarssonar, málvísindamanns úr Breiðdal, á rannsóknir á íslenskum bókmenntum. Stefán, sem starfaði sem prófessor í Bandaríkjunum, safnaði heimildum og ritaði bókmenntasögu á ensku um kringum 1950.

Framboðin í sveitastjórnarkosningunum eru síðan með fjölbreytta viðburði. Sjálfstæðisflokkurinn opnar kosningaskrifstofur í Fjarðabyggð, Framsókn í Múlaþingi heldur súpufundi, Fjarðalistinn og Vinstri græn í Fjarðabyggð verða hvor í sínu lagi með plokkdaga og Austurlistinn er með kökufundi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.