Helgin: Jazzmessa á Eskifirði

Sameiginlegur kirkjukór Stöðvarfjarðar og Breiðdalsvíkur, ásamt kór Norðfjarðarkirkju, hljóðfæraleikurunum og einsöngvara flytja Kórverkið „A Little Jazz Mass“ eftir Bob Chilcott í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði á sunnudag. Á Seyðisfirði verður gengið gegn sjálfsvígum og nágrannaslagur verður í annarri deild karla í knattspyrnu.

Maðurinn á bakvið tónleikana er Daníel Arason, organisti á Stöðvarfirði og Breiðdalsvík síðustu tíu ár og á Norðfirði í vetur. „Mér þótti því tilvalið að stefna að tónleikum með báðum þessum kórum,“ segir Daníel sem æft hefur kórana sitt í hvoru lagi í vetur.

„Mig hefur lengi langað til að láta flytja verkið A Little Jazz Mass sem ég held mikið upp á. Kórarnir tóku vel í þessa hugmynd mína sem nú er að verða að veruleika.“

Fleiri kórtónleikar verða í boði um helgina, Kvennakór Hornafjarðar syngur í Egilsstaðakirkju klukkan 20:30 í kvöld

Á Seyðisfirði verður aðfaranótt laugardags gengið úr myrkrinu í ljósið, í samvinnu við Pieta Ísland, samtök gegn sjálfsvígum. Gangan er engin til að minnast þeirra sem tekið hafa eigið líf og hvetja til opinnar umræðu um hættuna á sjálfvígum. Lagt verður af stað klukkan fjögur í nótt frá íþróttahúsinu.

Hátíðin List án landamæra heldur áfram um helgina. Sýningarnar sem opnuðu voru í Sláturhúsinu á Egilsstöðum og Skriðuklaustri um síðustu helgi standa fram yfir helgi. Þá verður Aron Kale plötusnúður á Feita fílnum í kvöld.

Í Hússtjórnarskólanum á Hallormsstað verður vorsýning útskriftarnema á morgun milli klukkan 13 og 15.

Íbúafundur um deiliskipulag á miðbæjarsvæði Djúpavogs verður á Hótel Framtíð klukkan 17:00 í dag. Boðið verður upp á að upplifa skipulagið í gegnum gagnvirkan sýndarveruleika og verður opið fyrir það til klukkan níu í kvöld.

Nágrannaslagur verður í annarri deild karla í knattspyrnu þegar Fjarðabyggð tekur á móti Leikni á Norðfjarðarvelli klukkan 19:15 í kvöld. Á morgun tekur Huginn á móti nýliðum Kára á Fellavelli en Höttur leggur upp í langferð og heimsækir Vestra á Ísafjörð. Liðin mættust í síðustu umferðinni í fyrra þar sem Höttur vann og tryggði þar með sæti sitt í deildinni. Einherji hefur leik í þriðju deild og heimsækir KV á morgun.

Útgáfugleði bókarinnar 261 dagur eftir Kristborgu Bóel Steindórsdóttur, blaðamann Austurfréttar/Austurgluggans, verður á Sólon í Reykjavík klukkan 17:00 í dag. Bókin byggir á dagbókarskrifum Kristborgar í kjölfar sambandsslita hennar við seinni barnsföður sinn árið 2015. Skrifunum er ætlað að opna inn í heim sársauka og erfiðleika sem fylgt geta sambands- og hjúskaparslitum.

Helgin ber líka keim af því sveitarstjórnarkosningar eru í nánd en í boði eru margvíslegir viðburðir á vegum framboðanna svo sem fjölskyldusamkomur, málefnafundir og opnun kosningaskrifstofa.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar