Orkumálinn 2024

Helgin: Hugmynd byggð á írskri pöbbastemmingu og færeyskum samsöng

Um helgina er eitt og annað um að vera á Austurlandi. Í Bókakaffi Hlöðum í Fellabæ fer í kvöld fram síðasta Sing a long vetrarins.

 

Jón Ingi Arngrímsson er einn þeirra sem staðið hafa að Sing a long kvöldunum í bókakaffi en hann segir hugmyndina koma úr ýmsum áttum. „Það var búið að búa til íslenska orðið samsöngur um þetta fyrirbæri, en það er erfitt að þýða þetta. Sing along er svolítið öðruvísi en okkar hefðir sem við eigum hér. Þetta er ekki beint fjöldasöngur en fólk kemur saman til að syngja. Við stálum hugmyndinni eiginlega frá Vestmannaeyjum. Þau hafa verið með svona eyjalagakvöld í nokkur ár. Þetta er samt ekki síður byggt á upplifunum af pöbbum úti á Írlandi, Skotlandi og Englandi. Svo eru þarna áhrif frá Færeyjum líka þar sem einn stærsti viðburður á Ólafsvöku er svona samsöngur. Arna [kona Jóns Inga] kom með þessa hugmynd eftir að hafa séð svona Vestmannaeyjakvöld en ég var búin að vera að veltast með hugmynd lengi um hvernig ég gæti útfært þessa írsku, skosku, ensku, færeysku stemmingu. Þannig kom þetta til,“ segir Jón Ingi.

Jón Ingi segir Bókakaffi ákaflega hentugt húsnæði fyrir þessar skemmtanir. „Gréta er í Bókakaffi of við erum búin að spila saman oft og mikið í gegnum tíðina þannig að hún var sú fyrsta sem mér datt í hug að fara í samstarf með. Bókakaffi hentar líka vel af því að það þarf ekkert ofboðslega marga til þess að það sé orðið vel söngfært.“

Sing a long kvöldin hafa verið regluleg á Bókakaffi síðustu tvo vetur og verið vel sótt. „Við erum að klára annan veturinn. Við byrjuðum í byrjun október fyrir þá rúmu einu og hálfu ári síðan. Við höfum gert þetta einu sinni í mánuði og það hefur nánast alltaf verið troðfullt. En það er eins og maður sér til dæmis útí Dublin að það er miklu betra að vera á litlum stað sem er troðfullur en að vera á stórum stað sem er hálf tómur. Við höfum sett þetta þannig upp að það eru 40 lög sem við tökum fyrir á hverju svona kvöldi þar sem fyrri hlutinn er tileinkaður ákveðnu þema en seinni hlutinn úr öllum áttum,“ segir Jón Ingi en þemað í kvöld er eins og nærri má geta Júróvisjon.

 

Lúðrasveitartónleikar og danssýning

Lúðrasveit Fljótsdalshéraðs heldur tónleika á Tehúsinu á Egilsstöðum á sunnudaginn. Tónleikarnir hefjast klukkan 17:00 en í auglýsingu segir að á efnisskránni verði fjölbreytt tónlist, sígild tónlist í bland við þjóðlög, popptónlist og kvikmyndatónlist.

Í Herðubreið á Seyðisfirði heldur Dance school Austurland danssýnigu á laugardag klukkan 16:00. Börnin í dansskólanum hafa verið að læra nútíma dans síðan í desember 2018 og bjóða til lokasýningar á laugardag. Nokkrir hópar sýna, 3-4 ára, 5-6 ára, 7-9 ára og 10-15 ára.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.