Helgin: Flestir hafa gaman af að sjá ungmenni blómstra

Rokktónlist tíunda áratugarins verður gerð skil á tónleikum til styrktar geðheilbrigðissviði Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) í Valaskjálf, Egilsstöðum annað kvöld. Fram kemur ungt austfirskt tónlistarfólk ásamt tveimur landsþekktum söngvurum.

„Það sem vakti fyrir okkur með þessu brölti var að gefa yngri kynslóðinni stökkpall til að koma fram með þekktum tónlistarmönnum og láta gott af sér leiða,“ segir Bjarni Þór Haraldsson, skipuleggjandi tónleikanna.

Hann stóð fyrst að baki tónleikum sem þessum árið 2017 og á þeim fyrri tveimur hafa safnast um 1,5 milljón króna til styrktar geðheilbrigðissviðinu. Á sama tíma hafa tónleikarnir orðið til þess að efla ungt austfirskt tónlistarfólk.

„Við höfum séð krakka sem farið hafa í framhaldsnám í tónlist til að leggja hana fyrir sig, hafa tekið þátt í fleiri verkefnum og sýnt miklar framfarir, bæði persónulega og faglega. Þetta hefur því gefið þeim gríðarlega mikið.

Við erum með fastan kjarna en svo er alltaf einhver nýr sem slæðist með. Hópurinn er orðinn þéttur og traustið mikið innan hans því þau þekkja hvert annað mjög vel.“

Með Austfirðingunum koma svo fram söngvararnir Stefán Jakobsson, sem oft er kenndur við Dimmu en hann hefur verið með í öll skiptin, og Kristófer Jensson úr Lights on a Highway. Bjarni segist reikna með að um 300 manns mæti í Valaskjálf á tónleikana annað kvöld.

„Ég skynja mikinn velvilja með málefninu, fólk vill styðja við það, auk þess sem flestir hafa gaman af að sjá ungmenni blómstra enda er afurðin sem skilað er mögnuð.“

Málþing og listviðburðir

Ýmislegt annað er í boði eystra um helgina. Í Breiðdalssetri verður á morgun haldið málþing þar sem umræðuefnið er sjálfbærni út frá ýmsum sjónarhornum.

Þá er í nýopnaðri Samfélagssmiðju Fljótsdalshérað að Miðvangi 31 slegið upp svokölluðum Loppumarkaði, með notuð barnaföt í dag og á morgun.

Ferðafélag Fjarðamanna fer í haustgöngu sína í Vöðlavík. Lagt verður upp frá skála þess að Karlsstöðum klukkan tíu í fyrramálið og gengið á Skúmhött.

BRAS – menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi stendur allan september og teygir sig inn í október. Af dagskrá hennar næstu daga má nefna prentnámskeið fyrir börn og ungmenni um helgina á Tækniminjasafni Austurlands og á mánudag bæði sirkussmiðju á Reyðarfirði og vinnusmiðju í hljóðupptöku á Stöðvarfirði.

Í Löngubúð á Djúpavogi verður teygað og teiknað annað kvöld á viðburði sem kallast „Drink & draw 2.0“ en þar er efnt til samverustundar sem gengur út á myndlistarsköpun.

Á Skriðuklaustri í Fljótsdal opnar Tryggvi Þórhallsson myndlitarsýningu í Gallerí Klaustur á sunnudag. Á sýningunni verða landslagsmyndir, minningar og stemmingsmyndir frá ferðalögum og ýmsum sjónarhornum. Tryggi er lærður myndlistarmaður en hann er einnig lögfræðingur og starfar sem slíkur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Ögurstund kvennaliðsins

Þá líður að lokum Íslandsmótsins í knattspyrnu og þá breytist hver leikur í úrslitaleik. Þannig er staðan í annarri deild kvenna þar sem lokaumferðin verður leikin um helgina. Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir heimsækir Sindra á Höfn á morgun. Austfjarðaliðið er í þriðja sæti deildarinnar með 19 stig en Sindri í því fjórða með 18. Liðið sem vinnur á möguleika á að komast upp um deild mistakist Gróttu á sama tíma að vinna Álftanes.

Leiknir heimsækir Kára á Akranesi í annarri deild karla á sunnudag en Fáskrúðsfjarðarliðið á í harðri baráttu við Vestra og Selfoss um að komast upp úr deildinni. Á sama tíma tekur Fjarðabyggð á móti Dalvík/Reyni.

Í þriðju deild karla tekur Einherji á móti Álftanesi á morgun og Höttur/Huginn á móti Sindra á sunnudag. Liðin fjögur skipa raða sér í sæti 6-9 í deildinni og vilja eflaust gulltryggja áframhaldandi veru sína í deildinni, auk þess að spila upp á stoltið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.