Orkumálinn 2024

Helgin: Endalaust af tónleikum og áhugaverð útivist

Tónlistarunnendur eiga að geta notið sín vel á Austurlandi um helgina, en stórstjörnur eru með tónleika á hverju strái næstu daga. Fyrir þá sem ekki vilja elta poppið er boðið upp á trompettríó í Egilsstaðakirkju, það er margskonar skipulögð útivist í boði sömuleiðis og myndlistarsýning í nýju sýningarrými á Borgarfirði.

Félagarnir Friðrik Ómar og Jógvan gera víðreist um Austurland næstu daga en þeir verða í kvöld á Fosshótelinu á Fáskrúðsfirði, laugardag í Miklagarði á Vopnafirði og sunnudag í Beituskúrnum í Neskaupstað. Þeim endist ekki helgin til að klára dagskrána hér eystra því á þriðjudag munu þeir stíga á stokk í Fjarðaborg á Borgarfirði.

Helgi Björnsson er einnig á ferðinni hér eystra en hann, ásamt Reiðmönnum vindanna, mun verða með tónleika í Fjarðarborg í kvöld og í Valaskjálf á Egilsstöðum á laugardag, eins og nánar hefur verið fjallað um hér á Austurfrétt.

Borgfirðingar gera það svo ekki endasleppt því að þriðju tónleikarnir eru í boði í Fjarðarborg á laugardag, en það eru útgáfutónleikar tónlistarkonunnar Aldísar Fjólu Ásgeirsdóttur frá Brekkubæ, sem sendir nú frá sér plötuna Shadows. Tónleikarnir hefjast kl. 20:30 og miðasala er í Fjarðarborg og á www.tix.is. 

Tónlistarstund með töfrandi trompettríótónum

Næstkomandi sunnudag munu trompetleikararnir Sóley Björk Einarsdóttir og Vilhjálmur Ingi Sigurðarson frá Akureyri ásamt Jóhann Ingva Stefánssyni frá Selfossi, koma fram á spennandi tónleikum í Egilsstaðakirkju. Tónleikarnir eru hluti af hinni árlegu tónleikaröð Tónlistarstundir sem nú í sumar fara fram í júní og júlí í Vallaneskirkju og Egilsstaðakirkju. Enginn aðgangseyrir er að tónleikunum og hefjast þeir kl. 20.

Nýtt sýningarrými á Austurlandi

Á laugardag munu Matthías Rúnar Sigurðsson og Sigurður Ámundason sýna höggmyndir og teikningar undir yfirskriftinni Xtreme Xone í Glettu frá kl. 17-20. Gletta er sýningarrými á efstu hæðinni í nýja hafnarhúsinu á Borgarfirði eystra.

Matthías Rúnar fæddist í Reykjavík árið 1988. Undanfarin ár hefur hann einbeitt sér að gerð höggmynda úr stein og hafa höggmyndir hans verið sýndar víða, m.a. í Safnasafninu, Ásmundarsafni og Hverfisgallerí. Sigurður útskrifaðist af myndlistabraut Listaháskóla Íslands árið 2012. Hann fæst aðallega við teikningar, gjörninga, vídeóverk og bókverk og hefur meðal annars sýnt verk sín í Kling og Bang, Hverfisgallerí, Sequences og á sýningunni Myrkraverk sem haldin var á Kjarvalsstöðum árið 2018.

Fróðlegar göngur og fræðsla fyrir börn

Fræðsludagskrá Vatnajökulsþjóðgarðs við Hengifoss og í Snæfellsstofu, hóf göngu sína í vikunni. Þar er nú daglega boðið upp á fræðslugöngur með landverði um jarðfræði og sögu Hengifossárgils. Göngurnar hefjast á bílaplaninu við fossinn kl. 10 og gengið er í fylgd með landverði upp að Litlanesfossi. Gangan þangað tekur um 45 mínútur og eftir það er gestum frjálst að halda áfram för sinni upp að Hengifossi. Gangan er auðveld en svolítið brött í byrjun.

Sömuleiðis er daglega í boði dagskrá fyrir áhugasama krakka á aldrinum 6-12 ára, sem geta fengið leiðsögn um náttúruna og farið í náttúrutengda leiki með landverði. Farið er í stuttan göngutúr við Snæfellsstofu og hver barnastund tekur um 45 mínútur. Mæting er í móttöku Snæfellsstofu kl. 14.
Minnt er á að klæða sig eftir veðri en aðgangur að fræðslugöngum og barnastundum er ókeypis.

Krakkar á Víknaslóðum og örnámskeið á Eiðavatni

Ferðafélag Fljótsdalshéraðs gengst á laugardag og sunnudag fyrir ferð sem er sérstaklega hugsuð fyrir fjölskyldur og yngri kynslóðina og því farið hægara yfir.
Gengið er frá Borgarfirði eystri í gegnum Brúnavík til Breiðuvíkur og gist í skála ferðafélagsins þar. Daginn eftir er gengið frá Breiðuvík og yfir í Húsavík þar sem hópurinn sameinast í bíla til baka á Borgarfjörð. Verð er kr. 10.000 fyrir fullorðna en frítt fyrir börn undir 18 ára aldri. Þórdís Kristvinsdóttir og Hildur Bergsdóttir leiða ferðina. Skráning fer fram hjá Ferðafélaginu og þegar síðast var að gáð voru örfá pláss laus.

Á Eiðavatni býður Venture North upp á örnámskeið í því sem nefnt er SUP eða Stand Up Paddleboard á laugardag frá kl. 10-11:30. Kennt er á búnaðinn, að krjúpa og standa upp og róa bæði áfram, afturábak og taka beygjur. Að hámarki geta 10 manns tekið fram, aldurstakmark er 12 ára og verð er kr. 5000 á mann. Innifalið er afnot af öllum búnaði - Bretti, ár, þurrgalla og skóm ásamt kennslu. Nánari upplýsingar um námskeiðið og skráningu á það má finna á viðburði á Facebook.

Hafnarhúsið á Borgarfirði hýsir nýtt sýningarrými á efstu hæð og á miðhæðinni hefur verið opnað kaffihús. Mynd: GG

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.