Helgin: „Eins og jólin hefðu gubbað á sviðið“

„Leikþættirnir gerast á mismunandi stigum jólaundirbúnings. Sá fyrri í október, en sá seinni á aðfangadag. Við hönnun leikmyndar þess seinni var markmiðið okkar að láta líta út eins og jólin hefðu gubbað á sviðið. Og ég held að okkur hafi alveg tekist það," segir Sigríður Lára Sigurjónsdóttir, annar tveggja leikstjóra á jóladagskrá Leikfélags Fljótsdalshéraðs, Jól í poka.


Leikfélag Fljótsdalshéraðs frumsýnir á morgun laugardag, tveggja einþáttunga dagskrá sem hlotið hefur nafnið Jól í poka.
Annars vegar verður sýndur þátturinn Kjóllinn hennar Grýlu eftir Emblu Guðmundsdóttur í leikstjórn Stefáns Boga Sveinssonar og hins vegar þátturinn Jól á háaloftinu eftir Ninu Cristoffersen í leikstjórn Sigríðar Láru Sigurjónsdóttir.

Fimmtán manns leika í sýningunni en um þrjátíu manns hafa komið að uppsetningu og utanumhaldi. Hópurinn samanstendur af unglingum og fullorðnum og uppsetningin hefur gengið mjög vel og allir haft gaman af samstarfinu.

Verkin verða sýnt í Bragganum (fyrrverandi Blómabæ) sem stendur skammt frá Bónus á Egilsstöðum.

„Þetta er í fyrsta sinn sem Leikfélagið ræðst í uppsetningu á jólasýningu og er vonast til að hún bæti enn frekar við stemminguna í miðbænum á Egilsstöðum í jólaannríkinu. Sýningin ef fyrir unga sem aldna,“ segir Sigríður Lára, en dagskráin verður alls sýnd sjö sinnum á aðventunni.


Rithöfundalestin
Árviss rithöfundalest fer verður á ferð um Austurland í dag föstudag og á morgun laugardag. dagana 6. - 8. des.

Á ferð verða kunnir höfundar, austfirskir og aðkomnir, með nýjustu verk sín. Einar Kárason les úr skáldsögunni Stormfuglar og Gerður Kristný kemur með ljóðabókina Sálumessu. Benný Sif Ísleifsdóttir er nýr höfundur með austfirskar rætur og með tvær bækur, skáldsöguna Grímu og barnabókina Jólasveinarannsóknina. Steinunn Ásmundsdóttir er einnig með tvær bækur, ljóðabókina Áratök tímans og skáldævisöguna Manneskjusögu. Stefán Bogi Sveinsson, les úr ljóðabókinni Ópus en henni fylgir geisladiskur með upplestri og tónlist. Kristborg Bóel mætir með bókina 261 dag og Hafsteinn Hafsteinsson teiknari fylgir eftir góðu gengi barnabókarinnar Enginn sá hundinn með bókinni En við erum vinir.

Ilmur af jólum
Söngkonan Hera Björk Þórhallsdóttir er á ferð um landið ásamt frábæru listafólki og verður með jólatónleika í Egilsstaðakirkju í kvöld og á Djúpavogi á morgun. Góðir gestir úr heimabyggð koma fram á hverjum stað. Hér má lesa viðtal Austurfréttar við Heru Björk fyrr í vikunni.

Aðventa lesin á Skriðuklaustri
Klukkan 13:30 á sunnudaginn hefst árlegur húslestur á Aðventu eftir Gunnar Gunnarsson á Skriðuklaustri, en það er Seyðfirska leikkonan Halldóra Malin Pétursdóttir sem sest niður og les fyrir okkur söguna um Benedikt, Eitil og Leó.

Tilvalið að slaka aðeins á í amstri aðventunnar. Enginn aðgangseyrir og allir velkomnir meðan húsrúm leyfir. Klausturkaffi verður opið og þar er boðið upp á kökuhlaðborð með jólaívafi milli 15:00 og 17:00.

Ljósmynd: Kristján H Svavarsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar