Helgin: Blanda af sirkus, gríni og almennu rugli með fullorðinsbragði

„Vegna fjölda fyrirspurna; já, það verður hægt að kaupa brjóstadúska á staðnum,” segir fjöllistakonan Margrét Erla Maack, sem verður með sýninguna Búkalú ásamt sínum uppáhalds skemmtikröftum í Havarí á laugardagskvöldið. Margrét Erla segir sýninguna ekki henta fólki undir 18 ára og ekki þeim sem óttast undur mannslíkamans.Margrét Erla hefur verið á þeysireið um Ísland með sýninguna og skiptir hún úr skemmtikröftum hverja helgi. Hún segir að sýningin sé blanda af sirkus, gríni og almennu rugli með fullorðinsbragði.

„Sýningin sjálf er skemmtiatriðahlaðborð þar sem kynnir leiðir mismunandi fólk á svið sem gleður áhorfendur. Svona sýningarform er alltaf að verða vinsælla og vinsælla og býður upp á skemmtun fyrir fólk með mjög stutt athyglisspan. Í Havarí koma fram auk mín, kynþokkabangsinn Broody Valentino, sirkusdrottningin Ellie Steingraeber og dansmeyjarnar Jezebel Express og Roxy Stardust,” segir Margrét Erla.

Hún segir það leggjast afar vel í hópinn að skemmta á Havarí. „Við höfum frétt að á sýninguna mæti stórt gæsapartý þannig að það verður svo sannarlega stuð í salnum. Allt frá því að ég kom inn í Havaríhlöðuna fyrst þá hefur mig langað að setja upp sýningu þar og núna loksins verður það að veruleika.

Nokkrir Austfirðingar hafa lýst vonbrigðum sínum yfir því að Havarí sé eina stopp túrsins á Austurlandi, en ástæðan er einfaldlega sú að ég þekkti ekki nógu vel til annara staða í landshlutanum. Svona sýning þarf svið, búningsherbergi og hljóðkerfi. Svo fyrir næsta Búkalú, sem verður líklega 2021, endilega látið mig vita af fleiri stöðum sem myndum henta í fjórðungnum.”


Flamencohátíð í Fjarðaborg
Flamencohátíð Borgarfjarðar verður haldin í Fjarðaborg í kvöld með suðrænni matar- og tónleikaveisla að hætti Já Sæls fjölskyldunnar.


Vopnaskak
Vopnaskakið á Vopnafirði hófst í gær og stendur til sunnudags. Dagskráin er hin glæsilegasta og meðal skemmtikrafta eru Páll Óskar, Sólmundur Hólm, Hreimur Örn Heimisson og Einar Ágúst Víðisson. Frétt um Vopnaskakið má lesa hér.

Flamenco gítarleikur á Skriðuklaustri
Reynir Hauksson verður með Flamenco gítartónleika á Skriðuklaustri á laugardaginn klukkan 14:00. Reynir býr og starfar á Spáni sem Flamenco gítarleikari og er á hringferð um landið að kynna hið magnaða listform fyrir Íslendingum.


Kaffihlaðborð í Mjóafirði
Fyrsta kaffihlaðborð sumarsins í Sólbrekku í Mjóafirði verður á sunnudaginn, en þau hafa verið haldin þar í mörg ár á sunnudögum í júlí og ágúst. Nánari upplýsingar eru gefnar í síma 4760020 eða 4760007.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar