Helgin: Bæjarhátíðir á tveimur stöðum

Bæjarhátíðir standa nú yfir bæði á Stöðvarfirði og Vopnafirði, flamenco-hópur ferðast um fjórðunginn, keppt er í torfæru á Egilsstöðum og ný listsýning opnar á Seyðisfirði.

Á Stöðvarfirði hófst bæjarhátíðin Stöð í Stöð á fimmtudag með Íslandsmótinu í Bubblubolta þar sem keppt var um Magga Margeirs bikarinn. Í gærkvöldi var þar fjölsóttur dansleikur með Páli Óskari.

Í dag er svæðið við Samkomuhúsið miðpunktur dagskrárinnar. Frá 13-16 er þar fjölskyldudagskrá með töframanni, tónlist og hoppuköstulunum en í kvöld hittist fólk þar og grillar saman.

Á Vopnafirði lýkur Vopnaskaki með Bustarfellsdeginum, sem haldinn er í 29. sinn þar sem safnið lifnar við.

Á Egilsstöðum hefst Isavia-torfæran nú klukkan 13:00. Allir helstu torfæruökumenn landsins mæta þar til leiks. Þar sem öllum sóttvarnatakmörkunum hefur verið aflétt er þetta fyrsta keppnin í tvö ár þar sem engar takmarkanir eru á áhorfendafjölda.

Flamenco-hópur Reynis Haukssonar er á ferðinni um svæðið, spilaði á Eskifirði í gær og verður á Borgarfirði í kvöld. Þar er einnig boðið upp á paella veislu að hætti heimamanna.

Í Neskaupstað stendur yfir tónleikaröðin Tónaflug. Rokksveitin Ham verður í Egilsbúð í kvöld.

Á Seyðisfirði opnar Garðar Bachmann Þórðarson sýninguna „Beðið eftir Tour de France“ í Gallerí Herðubreið. Garðar, sem er matreiðslumeistari, eldaði fyrir Skoda-liðið í Frakklandshjólreiðunum sumarið 2016. Á milli mála tók hann myndir af umhverfinu og fólki sem beið eftir hjólreiðagörpunum. Sýningin stendur til 23. júlí.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.