Helgin; Alvöru hlöðuball í Havarí

Hljómsveitin Hjálmar heldur tónleika í Havarí á laugardagskvöldið sem marka upphafið af sumardagskránni þar sem nú eru haldin í þriðja skipti undir nafninu Sumar í Havarí.



„Hljómsveitin Hjálmar eru á sinni fyrstu hringferð um landið eftir tæplega fimmtán ára starfsferil og munu að sjálfsögðu koma við í Havarí með það að markmiði að halda alvöru hlöðuball,” segir Svavar Pétur Eysteinsson, ferðaþjónustubóndi á Karlsstöðum í Berufirði. 

Hjálmar gáfu nýlega út sína sjöttu breiðskífu. „Hún er, eins og vanalega, uppfull af reggísmellum og hlaðin tilfinningum. Það verður því glatt á hjalla á laugardaginn í Havarí þegar reggíkonungar Íslands stíga á svið og skemmta Austfirðingum og þeirra gestum,” segir Svavar Pétur, en tónleikarnir hefjast um klukkan 21:00 og hvetur hann áhugasama að tryggja sér miða á Tix.is

Eins og fyrr segir marka Hjálmar upphafið af tónleikasumrinu í Havarí, en meðal annarra gesta í sumar verða Mr. Silla, Jae Tyler, Prins Póló, Kabarettsýningin Búkalú um lönd og lendar, Geirfuglarnir og Fm Belfast.

Kvennahlaupið
Kvennahlaup Sjóvá og ÍSÍ verður haldið um allt land á laugardaginn. Hér má sjá stað- og tímasetningar.

Hjálmar í Herðubreið
Hljómsveitin Hjálmar verður einnig með tónleika í Herðubreið á Seyðisfirði, sunnudagskvöldið 16. júní.


Opnun sumarsýninga í Sláturhúsinu
Líkt og verið hefur undanfarin ár er Sumarsýning Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs 2019 í Sláturhúsinu á Egilsstöðum tvískipt og opnar hún þann 17. júní.

Á efri hæði hússins er að finna myndlistarsýninguna „Ég er að deyja”, einkasýningu myndlistakonunnar Kristínar Gunnlaugsdóttur, sem af mörgum er talin ein af virtustu myndlistarmönnum á Íslandi samtímans. Kristín sýnir verk sem öll eru saumuð með ull á grófan hampstriga og unnin á árunum 2014 - 2019, annars vegar veggteppi sem fjalla um fæðingar og hins vegar verk á ramma sem tengja saman fortíð og nútíð og vísa til þess sem má segja og ekki segja.

Í Frystiklefanum á neðri hæð er sett upp sýningin „Því ég var eins eftir sem fyrr undir hans valdi“ og fjallar hún um ævi og örlög Sunnefu Jónsdóttur frá Geitavík og það viðamikla sakamál sem Sunnefa varð kveikjan að. Sýningin um Sunnefu er sögð í texta, teikningum og hljóðmynd sem og með notkun annarra miðla. Báðar sýningarnar verða opnar út sumarið, þriðjudaga til laugardaga frá klukkan 11:00 til 17:00.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.