Héldu rafrænt pókermót í samkomubanni

Félagar í stráka- og pókerklúbbnum Bjólfi dóu ekki ráðalausir þótt slá þyrfti tíu ára afmælisferð félagsins, sem vera ætti í lok mánaðarins, af og héldu rafrænt pókermót á föstudagskvöld. Það hentaði jafnvel betur fyrir meðlimi klúbbsins sem dreifðir eru víða.

„Þetta kemur ekki í staðinn fyrir að hittast en þetta er mjög gott í stað þess að gera ekki neitt,“ segir Elvar Snær Kristjánsson, stofnandi klúbbsins.

Honum var komið á laggirnar fyrir tíu árum síðan fyrir brottflutta Seyðfirðinga í Reykjavík. Síðan hefur Elvar flutt austur aftur, tveir félagar á Akureyri og einn til Spánar. „Við ætluðum að halda upp á afmælið í Prag í lok mánaðarins. Við vorum búnir að bóka flug og húsnæði en það þurfti að hverfa frá því.“

Klúbburinn stendur fyrir níu mótum yfir vetrartímann. Í honum eru 16-18 félagar og segir Elvar að alla jafna séu 8-10 á hverju móti. Mótið um helgina var því óvenju fjölmennt með 15 spilurum. Því er ekki útilokað að rafmótin séu komin til að vera.

„Við ræddum um að þau væru fín viðbót með hinum til að gera okkur sem ekki erum í Reykjavík kleift að vera með. Ég næ stundum 2-3 mótum yfir veturinn og sá á Spáni 1-2. Aðaltilgangurinn er samt að hittast þannig að hin mótin hætta ekkert.“

Spilað var í gegnum forritið PPPoker og samhliða töluðu félagarnir saman í gegnum fjarfundabúnað. Nokkur æfingamót höfðu verið haldin í aðdraganda mótsins til að prófa fyrirkomulagið.

Tvö mót eru enn eftir í mótaröð vetrarins. Hið næsta verður strax eftir páska og hefur þegar verið ákveðið að það verði spilað rafrænt. Örlög lokamótsins í maí ráðast síðan af útbreiðslu covid-19 faraldursins og ráðstafana gegn honum.

Og heilt yfir er Elvar Snær ánægður með kvöldið. „Ég var líklegur í spilamennskunni framan af, en svo datt botninn úr þessu og ég náði ekki verðlaunasæti.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.